Innlent

Aðeins 24 kvartað undan trúarafskiptum í skólum

Valur Grettisson skrifar
Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.

Á fundi mannréttindaráðs í dag var tillögu meirihlutans um samskipti trú- og lífsskoðunarfélaga við skólasamfélagið frestað.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lýst því yfir að þeir telji tillögu meirihlutans óþarfa og muni greiða atkvæði gegn henni í núverandi mynd samkvæmt tilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér.

Þá segja þeir í bókun að aðeins 24 kvartanir hafi borist vegna afskipta trúarhópa.

Á fundi mannréttindaráðs bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins með eftirfarandi hætti í tilefni frestunarinnar:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vonast til þess að með því að fresta tillögunni geri meirihlutinn sér grein fyrir því að skoða þurfi málið betur með vilja borgarbúa að leiðarljósi.

Ein af forsendum tillögu meirihlutans var sú að fjölmargar kvartanir hefðu borist vegna heimsókna trúfélaga í skólana, ekki fylgdu þeirri staðhæfingu neinar tölulegar upplýsingar.

Nú hafa þær verið lagðar fram og kemur í ljós að einungis 24 kvartanir hafa borist skólasamfélaginu sem telur tugþúsundir.

Hins vegar hafa fulltrúum í mannréttindaráði borist á yfir þrjúhundruð kvartanir þar sem að umræddri tillögu meirihlutans er mótmælt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×