Innlent

Dagar skóflustungna hjá ráðherrum runnir upp

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kolbrún Halldórsdóttir tekur fyrstu skóflustungu að Gestastofunni í dag. Mynd/ Pjetur.
Kolbrún Halldórsdóttir tekur fyrstu skóflustungu að Gestastofunni í dag. Mynd/ Pjetur.

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra tekur fyrstu skóflustunguna að Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í dag um klukkan korter í fimm. Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu kemur fram að Gestastofan verði fyrsta byggingin hér á landi sem verði byggð samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum. Við þetta tækifæri muni umhverfisráðherra jafnframt undirrita reglugerð um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs til norðurs og verður þá Trölladyngja í heild, Askja og stór hluti Ódáðahrauns hluti af þjóðgarðinum.

Þá mun umhverfisráðherra einnig þiggja heimboð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Sambandið sendi umhverfisráðherra heimboð í febrúar og óskaði eftir að fá að kynna fyrir henni þau áhrif sem stóriðja hefur haft á landsfjórðunginn. Umhverfisráðherra mun því snæða hádegisverð með fulltrúum Fjarðarbyggðar í Ráðhúsinu Reyðarfirði og fara síðan í skoðunarferð um Reyðarfjörð og nærsvæði.

Níu dagar eru til kosninga. Þetta er ekki einsdæmi að stjórnmálamenn taki skóflustungur að nýjum byggingum eða finni aðrar leiðir til að kynna aukin framlög úr opinberum sjóðum þegar líður að kosningum. Þannig undirrituðu Kristján Möller samgönguráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, minnisblað í síðustu viku um breytingar á samgöngumiðstöð í síðustu viku. Tekið var fram að stefnt yrði að því að framkvæmdir hefjist á þessu ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×