Innlent

Varaði við bankahruninu á ríkisstjórnarfundi

Davíð Oddsson varaði ríkisstjórnina við því að allt íslenska bankakerfið yrði komið á hausinn innan tveggja til þriggja vikna á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var 30. september, eða daginn eftir að tilkynnt var um að ríkið myndi taka yfir meirihluta í Glitni. Þetta staðfesti Davíð Oddsson í Kastljósinu á RÚV nú undir kvöld.

Líkt og Vísir greindi frá 2. október síðastliðinn mætti Davíð á fund ríkistjórnarinnar í lok september og varaði við því að bankakerfið stæði það illa að ríkið þyrfti að bjarga Landsbankanum og Kaupþingi. Viku seinna féll allt islenska bankakerfið eins og spilaborg. Davíð sagði í Kastljósinu að hann hefði bætt því við að ef hann teldi einhvern tímann vera grundvöll eða forsendu fyrir þjóðstjórn að þá væri að skapast fyrir því grundvöllur.

Þá hefði hann sagst hafa frétt af því að það ætti að fækka starfsmönnum um helming hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Við þeim fréttum hefði hann brugðist við með því að segja að það þyrfti að þrefalda eða fjórfalda fjölda starfsfólks en ekki fækka þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×