Lífið

Áhöfnin á Halastjörnunni snýr aftur eftir 25 ára hlé

áhöfnin á halastjörnunni Ari Jónsson, Gylfi Ægisson og Hemmi Gunn skipa hljómsveitina Áhöfnin á Halastjörnunni sem leikur á Kringlukránni í kvöld.
fréttablaðið/arnþór
áhöfnin á halastjörnunni Ari Jónsson, Gylfi Ægisson og Hemmi Gunn skipa hljómsveitina Áhöfnin á Halastjörnunni sem leikur á Kringlukránni í kvöld. fréttablaðið/arnþór

Áhöfnin á Halastjörnunni, sem er skipuð þeim Gylfa Ægissyni, Hemma Gunn og Ara Jónssyni, hélt sjaldgæfa tónleika á Kringlukránni í gærkvöldi og ætla þeir félagar að endurtaka leikinn í kvöld. Á efnisskránni eru slagarar á borð við Stolt siglir fleyið mitt og Ég hvísla yfir hafið.

„Fyrir 25 árum komum við í eina skiptið fram opinberlega í Búðardal. Síðan gerðum við ekkert í málinu fyrr en eftir minningartónleikana hjá Rúnari Júl, sem var útgerðarmaður og skipstjóri," segir Hemmi Gunn um endurkomu Áhafnarinnar á Halastjörnunni á Kringlukránni í kvöld.

„Við tókum létta æfingu fyrir tveimur mánuðum í Keflavík til að kanna hvort endurkoma væri möguleg og það reyndist vera. Þetta byggist allt á léttum anda. Gylfi er svo ótrúlega skemmtileg týpa, svo „orginal"."

Áhöfnin æfði saman á fimmtudaginn og að sögn Hemma var hlegið stanslaust í tvo tíma.

„Þetta eru lög sem allir þekkja. Það er svo mikill aragrúi góðra laga sem kallinn hefur samið," segir hann og útilokar ekki að sveitin haldi áfram að spila. „Ef þetta gengur vel ætlum við að halda því opnu því við höfum svo mest gaman af þessu sjálfir."

Stutt er síðan Áhöfnin atti kappi við Sigur Rós í spurningarþættinum Popppunkti á Rúv þar sem léttleikinn var að sjálfsögðu í fyrirrúmi.

„Þeir höfðu rosalega gaman af þessu," segir Hemmi um Sigur Rós.

„Þetta er sá þáttur sem hefur verið mest „dánlódaður" úr Ríkissjónvarpinu, úti um allan heim. Við viljum meina að það sé út af okkur," segir hann og skellihlær.
freyr@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.