Innlent

Evrópusinnar bíði með að fagna

Eiríkur Bergmann.
Eiríkur Bergmann.

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og forstöðumaður Evrópuseturs Háskólans á Bifröst, segir samþykkt Alþingis að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið vera mjög merkilega niðurstöðu. Langur og grýttur vegur sé hinsvegar framundan.

„Hingað til hefur Ísland verið eina ríki Vestur-Evrópu sem aldrei hefur sótt um aðild að ESB. Noregur og Sviss sóttu um en samningum þeirra var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu," segir Eiríkur. „Það þurfti allsherjar efnahagshrun til þess að við tækjum þetta skref." Hann segir að því séu þetta stórmerkileg tímamót.

Hann segir þetta þó einungis vera fyrsta skrefið í mjög langri og óvissri vegferð. Aðildarviðræður geti strandað á hverju sem er. Fyrsta hindrunin í aðildarviðræðum sé Icesavemálið. „Bretar og Hollendingar geta blokkerað inngöngu okkar í ESB þar til þeir telja að ásættanleg niðurstaða hafi náðst vegna Icesave," segir Eiríkur og bendir á að Slóvenar séu að gera slíkt gagnvart Króötum. Þá segir hann einnig eigi eftir að semja um Sjávarútveg og Landbúnað og það gæti orðið erfitt.

Hann segir of fljótt fyrir Evrópusinna að fagna. „Þeir ættu ekki að fagna eins og einhver sigur sé í höfn. Það er löng og grýtt leið framundan."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×