Innlent

Ísbjörn á Hveravöllum?

Fyrri ísbjörninn sem var skotinn fyrir skömmu.
Fyrri ísbjörninn sem var skotinn fyrir skömmu.

Í morgun barst Lögreglunni á Blönduósi tilkynning frá umsjónarmanni á Hveravöllum að fyrr um morguninn hafi tveir erlendir ferðamenn farið í gönguferð frá Hveravöllum áleiðis að Þjófadölum.

Stuttu síðar hafi þau komið til baka og verið mjög skelkuð og spurt hvaða dýrum þau mættu búast við að mæta í gönguferðum á Íslandi. Þau hafi komið í moldarflag þar sem þau hafi séð spor eftir bjarndýr og sögðust þau þekkja slík spor frá heimalandi sínu Póllandi. Þau hefðu síðan farið á brott frá Hveravöllum.

Lögreglan stöðvaði för þeirra og fékk þau til að fara til baka til Hveravalla, ásamt tveimur lögreglumönnum, til að skoða mætti sporin betur.

Viðbúnaðaráætlun var sett í gang með því að kynna helstu stofnunum og embættum, sem málið varðar, þessa stöðu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var við æfingar nærri Hveravöllum og litaðist áhöfn hennar um á svæðinu.

Þrátt fyrir mikla leit við Hveravelli hefur ekki tekist að finna þessi spor en taka verður fram að þessir erlendu ferðamenn virka mjög trúverðugir.

Þó svo að þessar upplýsingar sýnist vera ótrúlegar er brýnt fyrir fólki að fara með fullri gát og hafa þetta í huga.

Ekki er búið að taka ákvarðanir um frekari aðgerðir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögrelgunni á Blönduósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×