Innlent

Ferðamenn hætt komnir við Reynisfjöru þegar þeir reyndu að bjarga hval

Háhyrningur. Mynd/ AFP.
Háhyrningur. Mynd/ AFP.

Erlendir ferðamenn voru hætt komnir þegar þeir reyndu að koma hval til bjargar sem hafði rekið á land við Reynisfjöru við Vík rétt fyrir hádegið í dag. Ólafur Björnsson, bóndi á Reyni, segir að sér hafi ekkert litist á blikuna þegar hann hafi séð að fólkið hafi verið búið að vaða sjó allt upp að mitti.

„Það getur verið stórhættulegt að vaða þarna út í," segir Ólafur í samtali við Vísi. „Það var ekki um annað að ræða en að skjóta hvalinn," segir Ólafur. Hann segist því hafa lógað hvalnum og flutt hræið heim að bæ. Þangað hafi ferðamenn streymt að til að skoða það.

Lögreglan á Hvolsvelli segir að um háhyrningskálf hafi verið að ræða. Fulltrúi frá Hafrannsóknarstofnun hafi komið og skoðað kálfinn, en hann hafi verið mjög illa farinn og því hafi verið rétt ákvörðun hjá Ólafi að aflífa hann.

Lögreglan segir að það sé mjög varasamt að vaða út í sjóinn á þessum stað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×