Innlent

Fjármálaráðherra segir peningastefnuna ekki virka

Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði á fundi um evruna og landsbyggðina á Akureyri í dag að íslensk peningastefna hefði alls ekki virkað sem skyldi undanfarið. Sérfræðingur við Landsbankann segir vexti hér á landi "hræðilega háa".

 

Yfirskrift fundarins var evran og landsbyggðin. Skiptar skoðanir voru um hvort skipta ætti um gjaldmiðil. Edda Rós Karlsdóttir sérfræðingur hjá Landsbankanum sagði vextina hér á landi "hræðilega háa". Viðskiptahallinn væri heimsmet hjá vestrænum ríkjum og breytingar á húsnæðismarkaði og ófyrirséð útgáfa svokallaðra jöklabréfa þýddi að flotgengisstefna og verðbólgumarkmið Seðlabankans hefðu mátt sín lítils. Hún telur þó ekki rétt að taka upp evru.

 

Fjármálaráðherra tók undir með Eddu Rós og sagði að sjálfstæð peningastefna Íslands hafði ekki virkað sem skyldi undanfarið.

 

 

Jón Þorvaldur Heiðarsson sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri sagði í fréttum Stöðvar 2 á dögunum að hann teldi að evran væri góð lausn hér á landi, einkum fyrir landsbyggðina. Formaður Landssambands íslenskra útgerðarmanna gerði lítið úr þessu viðhorfi, gagnrýndi sérfræðinginn fyrir gaspur um þessi mál án þess að geta vísað í rannsóknir og taldi hann hafa rýrt orðspor Háskólans. Sérfræðingurinn svaraði skeytum LÍÚ fullum hálsi og sagði alveg ljóst að ofurvextir og jafnvel neikvæður hagvöxtur úti á landi færi ekki saman.

Íslenska krónan væri sennilega versti gjaldmiðill sem landsbyggðin gæti kosið sér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.