Innlent

Tekist á um málefni samkynhneigðra á prestastefnu

Tekist var á um það á prestastefnu í morgun hversu langt kirkjan eigi að ganga í málefnum samkynhneigðra. Ekki eru allir sammála um hvort kirkjan eigi að halda sig við núverandi form, sem er að blessa sambönd samkynhneigðra, eða hvort ganga eigi skrefinu lengra og leyfa vígslu þeirra.

Umræður um álit kenningarnefndar um staðfesta samvist fyrir samkynhneigða hófust um ellefuleytið í morgun en ekki er búist við því að þeim ljúki fyrr en klukkan þrjú og þá með atkvæðagreiðslu um álitið. Það gerir ráð fyrir sérstöku formi sem prestar geta notað til að blessa staðfesta samvist samkynhneigðra.

Um 40 prestar og guðfræðingar á prestastefnu hafa hins vegar skrifað undir nýtt álit þar sem farið er fram á það við Alþingi að lögum verði breytt á þann veg að prestar geti gefið samkynhneigða saman.

Fjölmiðlamönnum sem fylgjast með prestastefnu var vísað úr fundarsal í morgun þegar umræður um málið hófust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×