Innlent

Umfjöllun Kompáss ekki næg ástæða til rannsóknar

Umfjöllun Kompáss um Byrgið er ekki næg ástæða til sérstakrar rannsóknar segir sýslumaðurinn á Selfossi. Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir og læknir Byrgisins, segir þær ásakanir sem fram komu í þættinum í gær, vera reiðarslag.

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður meðferðarheimilisins Byrgið, hefur ítrekað tælt skjólstæðinga sína til kynlífsathafna. Um þetta var fjallað í fréttaskýringaþættinum Kompási í gærkvöldi. Þar kom fram að Guðmundur hefði ítrekað stundað kynlíf með skjólstæðingum sínum í meðferðarstarfinu.

Í skýrslu sem varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins lét gera árið 2001, og Kompás hefur undir höndum, kemur fram að fjármálastjórn Byrgisins sé í molum. Þrátt fyrir þetta hefur Byrgið fengið röskar 200 milljónir króna í opinbera styrki síðustu ár og verið með þjónustusamning við Fangelsismálastofnun um meðferð fanga.

Að sögn fangelsismálastjóra verður sannleiksgildi ásakananna í gærkvöldi kannað og í kjölfarið tekin ákvörðun um framhald samningsins. Að auki keypti ríkið húsnæðið að Efri- Brú undir starfsemina á 118 milljónir. Eftir því sem næst verður komist er ekkert opinbert eftirlit með faglegri starfsemi Byrgisins.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir engar kvartanir eða kærur hafa borist og því sé ekki sjáanlegur grundvöllur til rannsóknar enda vísi Guðmundur í Byrginu öllum ásökunum á bug.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.