Innlent

Steinunn Valdís eini nýliðinn í átta efstu sætunum

MYND/Hörður Sveinsson

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, er eini nýliðinn í átta efstu sætunum hjá Samfylkingunni í Reykjavík fyrir komandi þingkosningar. Guðrún Ögmundsdóttir þingkona hlaut hins vegar ekki náð fyrir augum kjósenda í prófkjörinu og er því á leið af þingi. Þetta varð ljóst eftir prófkjör flokksins í gær.

Steinunn Valdís var ekki á meðal átta efstu þegar fyrstu tölur vöru lesnar en náði áttunda sætinu þegar aðrar tölur voru gerðar opinberar og hélt því þar til úrslit lágu fyrir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, formaður Samfylkingarinnar, varð í efsta sæti í prófkjörinu, Össur Skarphéðinsson hreppti annað sætið og Jóhanna Sigurðardóttir það þriðja.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins, tryggði sér fjórða sætið eins og hann stefndi að, Helgi Hjörvar varð fimmti, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sjötta, Mörður Árnason varð sjöundi og sem fyrr segir hafnaði Steinunn Valdís í áttunda sæti.

Þær Kristrún Heimisdóttir og Valgerður Bjarnadóttir urðu í níunda og tíunda sæti í prófkjörinu og lýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir því yfir í gærkvöld að þær væru í baráttusætum flokksins, en hann hefur nú fjóra þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna.

Alls greiddu 4842 atkvæði í prófkjörinu og 4759 þeirra reyndust gild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×