Erlent

Ekkert athugavert við endurgreiðsluna

Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ segir ekki hægt að bera ákvörðun um endurgreiðslu á hluta fasteignagjalda saman við það að borgarstjórinn í Reykjavík auglýsi viðtalsfundi skömmu fyrir kosningar. Lækkunin er kosningadúsa upp í kjósendur segir oddviti Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ.

Við sögðum frá því í fréttum að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, hefði sætt gagnrýni af hálfu vefritsins Vefþjóðviljans. Ástæðan var sú að hún hafði látið auglýsa viðtalsfundi sína með heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu. Þar var einnig bent á að Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ og bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins hefði verið gagnrýndur fyrir að ákveða skömmu fyrir kosningar að endurgreiða íbúum hluta fasteignagjaldsins.

Ragnheiður segir að þarna sé verið að bera saman tvo gjörólíka hluti. Annars vegar auglýsingar borgarstjóra sem hún sé í fullum rétti með. Hins vegar ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að endurgreiða bæjarbúum fasteignagjöld vegna þess að í ljós hafi komið hversu góð staða bæjarins væri.

Jónas Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ, segir að ákvörðun um endurgreiðslu hafi verið kosningadúsa upp í kjósendur. Hann er þó ekki á öðru en að ákvörðunin hafi verið réttlætanleg þó hún hafi verið seint fram komin. Hann furðar sig hins vegar á hversu mjög hafi legið á að samþykkja tillöguna þegar hún kom fram, ekki síst í ljósi þess að tillögum hans í svipaða veru hafi verið hafnað við gerð fjárhagsáætlunar. Þar vísar hann til tillagna um lækkun fasteignagjalda og leikskólagjalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×