Innlent

Hefur miklar áhyggjur af þróun löggæslumála

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dagur B. Eggertsson segir miðborgarþjóna ekki koma í stað lögreglunnar.
Dagur B. Eggertsson segir miðborgarþjóna ekki koma í stað lögreglunnar.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi segist lengi hafa haft áhyggjur af löggæslumálum í Reykjavík og viðrað þær. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að einungis 14 lögreglumenn stóðu vaktina á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið laugardagskvöld.

„Það er sýnileg löggæsla sem virkar og það vita allir. Þannig að það er grafalvarlegt mál ef ekki er verið að beita þeim meðulum sem virka," segir Dagur. Hann segir að þegar 14 manns standi vakt sé það einungis um helmingurinn af því sem þurfi að vera. "Það er bara helmingur af því sem var þegar Reykjavík var miklu minni borg," segir Dagur. Hann bendir á að nú sé allt höfuðborgarsvæðið undir. Staða löggæslumála sé því grafalvarlegt mál sem þurfi að taka á strax, því framundan séu erilsömustu og erfiðustu helgar ársins.

„Já og nei," segir Dagur þegar hann er spurður að því hvort miðborgarverðir, sem Reykjavíkurborg hefur nýlega ráðið í þjónustu sína, geti létt undir með lögreglunni. „Þeir eru svipaðir og borgarstarfsmenn sem unnu fyrir 10 árum við svipuð verkefni þegar verið var að leysa unglingavandamál í miðborginni," segir Dagur. Hann bendir þó að þeir komi í veg fyrir sýnilega þjónustu. „Vegna þess að það á enginn að hafa heimild til þess að grípa inn í mál eða handtaka fólk heldur en lögreglan," segir Dagur. Það sé því öfug þróun ef sveitafélög ráði til sín öryggisgæslu í stað þeirrar löggæslu sem þurfi að vera.

Dagur bendir sérstaklega á að það skjóti skökku við að Embætti ríkislögreglustjóra sé stækkað og sérsveitin efld á sama tíma og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé í þessari stöðu.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×