Handbolti

Haukar sækja sér reynslumikinn mark­vörð á Sel­foss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vilius Rasimas ver mark Haukanna á næstu leiktíð.
Vilius Rasimas ver mark Haukanna á næstu leiktíð. Haukar Topphandbolti

Litháinn Vilius Rasimas verður ekki áfram með Selfyssingum en spilar þó áfram í Olís deildinni í handbolta næsta vetur.

Haukar segja frá því á miðlum sínum að félagið hafi gert tveggja ára samning við litháenska markvörðinn.

Rasimas er 34 ára og hann hefur varið mark Selfoss í Olís deildinni undanfarin fjögur tímabil.

Í vetur var hann með 6,2 varin skot í leik og 29 prósent markvörslu samkvæmt tölfræði HB Statz. Rasimas varði 26 prósent vítanna sem hann reyndi við.

Vilius er reynslumikill markvörður og á leiki fyrir litháenska landsliðið. Hann hefur einnig leikið með liðum í Póllandi, Frakklandi og Þýskalandi á sínum ferli. 

„Síðustu ár hefur hann verið einn besti markvörður Olísdeildarinnar og var meðal annars valinn besti markmaður deildarinnar 2021. Það er því mikil ánægja með að fá Vilius í Hauka. Þar mun hann styrkja markvarðateymið ásamt því að miðla af reynslu sinni til yngri leikmanna,“ segir í frétt á miðlum Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×