Upp­gjörið: Þór/KA - Tinda­stóll 5-0 | Þór/KA í stuði í Boganum

Árni Gísli Magnússon skrifar
Þór/KA konur eru komnar upp í annað sætið í deildinni eftir þennan flotta sigur.
Þór/KA konur eru komnar upp í annað sætið í deildinni eftir þennan flotta sigur. Vísir/Hulda Margrét

Þór/KA vann öruggan 5-0 sigur gegn Tindastóli í Boganum fyrr í kvöld en leikurinn var liður í sjöttu umferð Bestu deildar kvenna. Heimakonur komust snemma yfir og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik og sigurinn því aldrei í hættu.

Þór/KA byrjaði leikinn af krafti og mátti ekki miklu muna að fyrsta markið kæmi eftir rúma eina mínútu en varnarmenn Tindastóls hentu sér fyrir boltann á allra síðustu stundu í tvígang.

Eftir 14 mínútna leik kom fyrsta mark leiksins þegar miðvörðurinn Agnes Birta Stefánsdóttir skallaði boltann inn eftir hornspyrnu frá Kareni Maríu. Við þetta mark opnuðust flóðgáttir og mörkin létu ekki á sér standa.

Einungis fjórum mínútum síðar sendi Hulda Björg hnitmiðaðan bolta inn fyrir þar sem Karen María kom í hlaupinu og kláraði færi sitt vel ein á móti markmanni. Tindastóll heimtaði rangstöðu og fór svo að Konráð Freyr Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, fékk tvö gul spjöld og þar með rautt fyrir mótmæli.

Áfram óðu heimakonur í færum og næsta mark kom á 33. mínútu þegar Iðunn Rán Gunnarsdóttir, varnarmaðurinn ungi, setti boltann inn af stuttu færi þegar hún fylgdi eftir skalla frá Kimberley Dóru eftir hornspyrnu.

Þegar uppbótartími fyrri hálfleiks var að renna sitt skeið átti Iðunn Rán góða sendingu inn fyrir á Söndru Maríu sem var ein gegn markmanni og kláraði færið sitt af stakri snilld með því að smyrja boltann upp í skeytin fjær. Staðan 4-0 í hálfleik og brekkan orðin brött fyrir gestina.

Síðari hálfleikur var mun rólegri og jafnari og höfðu gestirnir nokkur tækifæri til að minnka muninn en tókst það ekki.

Á 80. mínútu komu þær Emelía Ósk Kruger og Sonja Björg Sigurðardóttir inn á í liði Þór/KA og einungis þremur mínútum síðar lagði Sonja upp mark á Emelíu sem skallaði boltann í slána og inn af mjög stuttu færi.

Fleiri urðu mörkin ekki og öruggur 5-0 sigur Þór/KA staðreynd.

Stjörnur og skúrkar

Allt Þór/KA liðið á hrós skilið fyrir frábæran leik í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik, og erfitt að taka einhverjar út fyrir sviga en Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir voru frábærar ásamt þeim Huldu Björgu Hannesdóttur og Agnesi Birtu Stefánsdóttur í vörninni sem gerðu sig einnig gildandi í sóknarleiknum í dag.

Enginn sérstakur skúrkur en Tindastóls liðið í fyrri hálfleik átti einfaldlega engin svör við leik Þór/KA sem er umhugsunarvert fyrir liðið í heild sinni.

Atvik leiksins

Það er markið sem Emelía Ósk skorar eftir að hafa verið á vellinum í þrjár mínútur en stoðsendingin kom frá Sonju Björgu sem kom einmitt inn á völlinn á sama tíma en þess má geta að þetta er fyrsta mark Emelíu í meistaraflokki og sömu sögu má segja um Iðunni Rán sem skoraði sitt fyrsta meistarflokksmark í dag.

Dómarinn

Sigurður Hjörtur stóð sig prýðilega með flautuna í dag en lítið var um stór atriði. Það er spurning með rangstöðu í öðru marki Þór/KA en Konráð Freyr Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, fékk rautt spjald fyrir mótmæli eftir það mark. Mér sýndist þó hægri bakvörður Tindastóls ekki vera í línu og markið gott og gilt en hver veit?

Stemning og umgjörð

Leikið var í Boganum í dag og það er þekkt stef að Þór/KA og karlalið Þórs eru illviðráðanleg þar inni og spilar stemningin þar mikið inn í en ágætlega var mætt á leikinn í dag og fær hópur ungra stúlkna sérstakt hrós fyrir mikinn stuðning en þær mættu með trommur og hvöttu heimaliðið áfram allan leikinn. Þá fór það ekki fram hjá neinum að Margrét Árnadóttir er í miklu uppáhaldi hjá þessum stuðningshóp.

Jóhann Kristinn Gunnarsson.VÍSIR/VILHELM

„Hefðum getað gert þetta ennþá ljótara á töflunni”

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, var mjög ánægður með leik síns liðs og þá sérstaklega spilamennskuna í fyrri hálfleik sem lagði grunninn að sigrinum.

„Bara örugglega þessi frábæri fyrri hálfleikur. Stelpurnar voru frábærar og komu bara virkilega tilbúnar í þetta og ég held þær hafi átt fá svör við þessu og við hefðum getað gert þetta örugglega enn þá ljótara á töflunni en þetta er alveg yfirdrifið nóg, mjög flott.”

Þór/KA pressaði Tindastól af krafti hátt á vellinum frá upphafi og gaf þeim engan tíma á boltanum sem reyndist gestunum virkilega erfitt í dag.

„Það var ætlunin hjá okkur að gera það þannig og svona reyna eyða öllum vonum þeirra að ná einhverju út úr þessu því við vissum svo sem alveg hvað þær ætluðu að reyna gera þannig fyrri hálfleikurinn fór svona nokkurn veginn eins og við vildum sjá.”

Síðari hálfleikur var heldur rólegri þar sem aðeins eitt mark var skorað. Jóhann segir planið þó alls ekki hafa verið að slaka á í síðari hálfleik.

„Nei nei það var ekki neitt plan um það því við ætluðum að reyna að sækja. Málið er bara að við höfum oft lent í þessu og lið hafa lent í þessu, þegar þú ert yfir þrjú eða fjögur núll í hálfleik, alveg sama hvað þú reynir að mótivera þig í seinni hálfleikinn að koma mótiveraður inn í hann, þú ert eiginlega búinn með allt af borðinu í fermingarveislunni og þó að þú reynir að ljúga því að þig langi í meira að þá ertu bara að vera pínu saddur og ég held að við höfum bara lent svolítið í því hérna í seinni og gáfum bara eftir, það var ekki viljandi og við erum ekki að hvíla okkur fyrir neitt því það eru tvær vikur í næsta leik.”

Fimm markaskorar litu dagsins ljós hjá Þór/KA og þ.á.m. skoruðu þær Emilía Ósk Kruger og Iðunn Rán Gunnarsdóttir sín fyrstu mörk í meistaraflokki og Agnes Birta Stefánsdóttir sitt fyrsta mark í efstu deild. Jóhann er ánægður með að mörkin séu farin að koma úr öllum áttum.

„Já að sjálfsögðu, það er mjög gaman að sjá margar skora og þær gerðu mjög vel í að loka á Söndru (Maríu Jessen) í dag og voru með besta leikmann þeirra sem frakka og það var alveg sama hvert Sandra færði sig, hún var komin með henni, og meira að segja núna 20 mínútum, hálftíma, eftir leik eru þær enn þá saman hérna, hún yfirgefur hana ekki þannig þær eru bara á spjallinu hérna á þýskri tungu”, sagði Jóhann og hló en þær Sandra María og Gwendolyn Mummert, miðvörður Tindastóls, sátu saman á vellinum þar sem viðtalið var tekið og ræddu málin gaumgæfilega á þýsku.

Jóhann hélt svo áfram: „Það var mjög gaman að sjá aðra stíga upp og ná inn góðum mörkum, það voru frábær mörk sem við skoruðum.

Emelía Ósk Kruger og Sonja Björg Sigurðardóttir komu inn á sem varamenn á 80. mínútu og þremur mínútum síðar lagði Sonja upp mark fyrir Emelíu og hlýtur svona skipting því að flokkast sem draumaskipting þjálfarans, eða hvað?

„Þetta er bara draumur fyrir þær að koma inn og eiginlega bara stórt hrós á þær að koma og vera tilbúinn sem skiptimaður að koma inn og breyta leiknum, alveg sama hvernig staðan er, það er alveg til fyrirmyndar hjá þeim og stórt hrós á þær fyrir það hvernig þær gerðu þetta í dag.”

Halldór Jón Sigurðsson, betur þekktur sem Donni, er þjálfari Stólanna.Vísir/Anton Brink

„Brött brekka”

Halldór Jón Sigurðsson, eða Donni eins og hann er jafnan kallaður, þjálfari Tindastóls, var eðlilega ósáttur með ýmislegt í leik síns liðs eftir 5-0 tap gegn Þór/KA en horfir jákvæður fram veginn.

„Bara eins og þú sagðir, brött brekka, það sem við tökum kannski sárast úr þessu er að við töpum og fáum á okkur tvö mörk úr föstum leikatriðum, mér finnst það hundlélegt, það er eðlilegt að Þór/KA skori mörk en þær skora nú mörk yfirleitt alltaf og eru bara nokkuð góðar í sínum sóknarleik. Mér fannst okkar sóknarleikur ekki nógu góður, ekki nógu beittur, náðum illa að framkvæma það sem við ætluðum að gera, mögulega líka af því Þór/KA gerði sitt vel. Föst leikatriði, ég var mjög hundfúll með það og fannst þetta heldur of stórt ef eitthvað var.”

Þór/KA pressaði Tindastól hátt á vellinum af miklum krafi strax frá upphafi sem kom Donna ekkert á óvart.

„Nei nei við þekkjum Þór/KA alveg inn og út og allt um alla leikmenn og leikkerfi og allt svoleiðis. Þær voru bara betri, með meiri gæði og voru á deginum sínum og eins og ég segi, þessi föstu leikatriði voru aðalmálið sem að ég er svekktur með. Ég er ekkert svekktur með að Sandra skori mark upp í samskeytin eða eitthvað þannig, það er bara hluti af þessu, en ég var svekktur með það og svekktur með okkar sóknarleik heilt yfir í leiknum, hann var ekki góður, en að sama skapi þá hugsum við um næsta leik og höfum góðan tíma núna til að endurnæra okkur og safna kröftum og reyndar safna leikmönnum þannig að spennandi bara að sjá hvernig baráttan þróast.”

Aldís María Jóhannsdóttir þurfti að vera af velli eftir 12 mínútur vegna höfuðmeiðsla sem urðu eftir átök inni á vellinum.

„Hún fékk bara olnboga í hausinn og svo var keyrt aftan í hana eftir það þannig að hún er bara vönkuð og ég er hundfúll með það. Ég held að það hafi ekki verið dæmd aukaspyrna einu sinni en það er allt annað mál.”

Konráð Freyr Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Tindastóls og bróðir Donna, fékk rautt spjald eftir að hafa mótmælt öðru marki Þór/KA en hann ásamt fleirum vildu meina að um rangstöðu væri að ræða.

„Það er ekkert flókið, hann var bara að mótmæla því að honum fannst þetta vera rangstaða og það er þessi nýja regla maður, það má ekkert segja! Þannig hann fékk að fara í skammarkrókinn og hann skammast sín bara og kemur tvíefldur þegar hann má koma til baka.”

„Við náttúrulega spilum ekki við Þór/KA í næsta leik”, sagði Donni kíminn aðspurður hvernig liðið ætlaði að bæta sig fyrir næsta leik og hélt svo áfram: „Það er kannski líka hluti af því, þú aðlagar leikinn að mótherjunum og við spiluðum við lið sem var bara betra en við í dag og næst einbeitum við okkur að næsta leik sem er á móti hörku liði og verður bara spennandi að sjá hvernig við mætum í þann leik því ætlum klárlega að gera betur og undurbúum okkur bara af kostgæfni þann leik og mætum klár.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira