Innlent

Rýma tvo reiti á Seyðis­firði vegna snjó­flóða­hættu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þessi mynd af Seyðisfirði tengist fréttinni ekki beint.
Þessi mynd af Seyðisfirði tengist fréttinni ekki beint. vísir

Tveir reitir hafa verið rýmdir á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu. Óvissustig er í gildi á Austfjörðum.

„Þetta eru í raun tvö hús undir Strandartindi, þar þarf ekkert mikinn snjó. Við búumst ekki við snjóflóðahættu annars staðar, eins og á Neskaupsstað, í bili,“ Óliver Hilmarsson ofanflóðasérfræðingur í samtali við Vísi og bætir við að um iðnaðarúsnæði sé að ræða. Þrír voru á svæðinu þegar óvissustigi var lýst yfir. 

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að talsvert hafi snjóað í fjöll í hvassri austanátt á Austfjörðum en rignt á láglendi. 

„Vitað er um nokkur smærri flóð í Norðfirði og eitt úr Skágili ofan við Neskaupstað sem stöðvaðist nokkuð ofan við skógrækt. Líklega hafa þó fleiri flóð fallið í nótt og í morgun á Austfjörðum.“

Því sé búið að lýsa yfir hættustigi og rýma reiti 4 og 6 á Seyðisfirði. 

„Veðurspá sýnir áframhaldandi austanátt með snjókomu til fjalla en rigningu á láglendi og neðri hluta hlíða. Því má búast við votum snjóflóðum og mögulega krapaflóð á láglendi þegar líður á kvöldið.“

Ekki er búist við hraðfara þurrum flóðum í þessu veðri með langt úthlaup eins og í snjóflóðahrinunni í mars á síðasta ári.

Á þriðjudag dregur úr úrkomu með stöku éljum til fjalla og skúrum á láglendi og ætti þá að draga úr snjóflóðahættu en mögulega getur verið krapaflóðahætta áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×