Erlent

Musk takmarkar tíst á Twitter

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Musk er sagður hafa sagt upp öllum starfsmönnum Twitter sem unnið hafa gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlinum.
Musk er sagður hafa sagt upp öllum starfsmönnum Twitter sem unnið hafa gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlinum. Getty/Selim Korkutata

Twitter hefur tímabundið takmarkað fjölda tísta sem notendur geta lesið á hverjum degi.

Eigandi Twitter, Elon Musk, greindi frá þessum fréttum í tísti fyrr í kvöld. 

Þar sagði að notendur sem hafa ekki greitt fyrir aðgang sinn geti aðeins skoðað 600 tíst á dag. Nýstofnaðir aðgangar geta skoðað enn færri tíst, eða 300. Hins vegar geta þeir sem hafa greitt fyrir „verified“ aðgang með bláu haki skoðað allt að sex þúsund tíst á dag.

Musk sagði tímabundnar takmarkanirnar vera lið í því að eiga við gríðarlegt magn gagnaskröpunar (e. data scraping) og kerfismisnotkunar. Samfélagsmiðillinn glímdi við gríðarlegan gagnastuld sem þýddi að virkni forritsins versnaði fyrir hefðbundna notendur. 

Síðar meir hækkaði hann takmarkið fyrir alla hópana þrjá í átta þúsund tíst fyrir „verified“ aðganga, 800 tíst fyrir ókeypis aðganga og 400 fyrir nýstofnaða ókeypis aðganga.

Ekki hefur enn komið í ljós hve lengi takmarkanirnar munu gilda.

Fljótlega eftir fréttirnar af takmörkununum hófu notendur að tísta „RIPTwitter“ og „GoodbyeTwitter“ til marks um að endalok samfélagsmiðilsins væru yfirvofandi.


Tengdar fréttir

Musk tilbúinn að selja Twitter „réttum“ aðila

Elon Musk sagði að yfirtaka Twitter hafi verið „frekar sársaukafull“ og líkti rekstri miðilsins við „rússíbanareið“ í viðtali við BBC í morgun. Hann hafi einungis keypt Twitter af því dómari ætlaði að þvinga hann til þess og segist tilbúinn að selja hann ef réttur aðili hefur áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×