Erlent

Norður-Kórea sendi dróna inn í loft­helgi ná­grannana

Árni Sæberg skrifar
Þessi norður-kóreski dróni fannst brotlentur innan landamæra Suður-Kóreu árið 2017. Síðan þá hafa slíkir drónar ekki farið yfir landamærin fyrr en í dag.
Þessi norður-kóreski dróni fannst brotlentur innan landamæra Suður-Kóreu árið 2017. Síðan þá hafa slíkir drónar ekki farið yfir landamærin fyrr en í dag. Lee Jung-hoon/AP

Suður-Kóreumenn brugðust hratt við þegar norður-kóreskum drónum var flogið inn í lofthelgi landsins í dag. Skotið var í átt að drónunum og orrustuþotur sendar til móts við þá.

Varnamálaráðuneyti Suður-Kóreu tilkynnti í dag að nágrannarnir til norðurs hefðu sent dróna inn fyrir landhelgi landsins í fyrsta sinn í fimm ár. Um var að ræða fimm dróna, þar af einn sem komst alla leið að norðurhluta höfuðborgarinnar Seúl. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort drónarnir hafi verið skotnir niður eða þeim snúið við.

Þá segir í tilkynningu að ein orrustuþota Suður-Kóreumannanna hafi brotlent skömmu eftir flugtak en að báðir flugmenn hennar hafi náð að skjóta sér út og séu heilir á húfi.

Svöruðu í sömu mynt

Í tilkynningunni segir að her Suður-Kóreu hafi sömuleiðis sent eftirlitsdróna að landamærum landanna tveggja. Í frétt AP um málið segir að sjónarvottar hafi sagt drónana hafa farið yfir landamærin til norðurs.

Herinn segir drónana einungis hafa flogið við landamærin og myndað herstöðvar Norður-Kóreumanna.

Opinber staðfesting á hernaðaraðgerðum Suður-Kóreumanna í norðri er fáheyrður viðburður. Talið er að hún sé til marks um að ríkisstjórn Suður-Kóreu ætli sér að taka á storkunum nágrannana af aukinni hörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×