Innlent

Efling fikrar sig nær SA með nýju til­boði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. 
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.  Vísir/Vilhelm

Stéttarfélagið Efling hefur gert Samtökum atvinnulífsins (SA) tilboð um endurnýjun samninga. Í nýju tilboði er samþykkt að hagvaxtarauki sem bætast átti á laun í apríl á næsta ári falli niður en á móti koma aðra launaliðshækkanir. 

Tilboðið verður kynnt nánar á samningafundi Eflingar og SA undir stjórn Ríkissáttasemjara klukkan níu í fyrramálið. Tilboðið gildir til loka þess dags samkvæmt tilkynningu sem kom frá Eflingu fyrr í dag. 

Hækkanir á töxtum verða á bilinu 57.500 krónur til 65.558 krónur að meðtalinni flatri fimmtán þúsund króna framfærsluuppbót. Gerðar eru breytingar á hlutföllum innan launatöflu. 

„Meginforsendur tilboðsins eru að lægstu taxtalaun hækki nægilega til að ná til baka kaupmáttarrýrnun síðan í apríl 2022 og að tryggja kaupmátt taxtalauna fram að lokum samningstíma. Þá er horft til þess að samningur sé raunverulegt framhald Lífskjarasamningsins í þeim skilningi að hækkanir lægstu launa og taxtalauna séu ekki miklu lægri en hækkanir þeirra sem ofar eru í launastiganum. Jafnframt miðar samningurinn að því að hlutdeild launa í hagvexti og góðri afkomu fyrirtækja sé tryggð,“ segir í tilkynningunni frá Eflingu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×