Erlent

Ummæli Abbas um „50 helfarir“ Ísrael falla í stórgrýttan jarðveg

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ummæli Abbas hafa vakið hörð viðbrögð.
Ummæli Abbas hafa vakið hörð viðbrögð. AP/epa

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur vakið hörð viðbrögð og mikla reiði með ummælum sem hann lét falla á blaðamannafundi með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, á blaðamannafundi í Berlín í gær.

Abbas var á fundinum spurður um árás liðsmanna palestínsku skæruliðasamtakanna Svarta september á Ólympíuleikunum í Munchen 5. september 1972. Samtökin voru á þeim tíma tengd Fatah flokki Abbas.

Ellefu íþróttamenn Ísrael og þýskur lögreglumaður létust í árásinni en Abbas sagðist ekki hafa í hyggju að biðjast afsökunar á harmleiknum nú þegar hálf öld væri liðin, og vísaði til hroðaverka sem Ísraelsmenn hefðu framið gegn Palestínumönnum frá 1947.

Abbas sagði að á þessum tíma hefðu framið 50 hroðaverk, 50 helfarir, og fleiri létu lífið á hverjum degi.

Á upptökum má sjá Scholz setja upp svip þegar Abbas lætur ummælin falla en honum gafst ekki tíma til að svara forsetanum á blaðamannafundinum. Hann tísti hins vegar eftir á að ummælin væru viðbjóðsleg.

Kanslarinn ítrekaði að í augum Þjóðverja væri Helförin einstakur viðburður og að tala um Helfarir í fleirtölu væri óásættanlegt. Yair Lapid, forsætisráðherra Ísrael, tísti að ásökun Abbas sem hann hefði látið falla á þýskri grund væri ekki aðeins siðferðilega óforsvaranleg heldur tröllvaxin lygi.

Lapid sagði að Abbas yrði aldrei fyrirgefið.

Sjálfur gaf Abbas út yfirlýsingu í kjölfar fjaðrafoksins þar sem hann sagði Helförina ógeðfelldasta glæp mannkynssögunnar og að hann hefði ekki ætlað að afneita sérstöðu hennar heldur draga kastljósið að glæpum Ísralesmanna gegn Palestínumönnum, allt frá stofnun Ísraelsríkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×