Innlent

Halda til móts við göngu­hóp í vand­ræðum á Hvanna­dals­hnjúki

Kjartan Kjartansson skrifar
Gönguhópur á Hvannadalshnjúki. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Gönguhópur á Hvannadalshnjúki. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/RAX

Björgunarsveitarfólk af Suður- og Suðausturlandi er nú á leið að gönguhópi sem villtist á Hvannadalshnjúki í dag. Enginn er slasaður í hópnum en björgunarsveitir vonast til þess að komast að fólkinu á næstu klukkutímunum.

Hópurinn lenti í vandræðum á leið sinni niður af Hvannadalshnjúki í dag, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúar Landsbjargar. Fólkið óskaði eftir aðstoð um fimm leytið síðdegis en það hafði þá verið á göngu í nær allan dag. Það hafði tapað leiðsögubúnaði sínum og villst á leiðinni.

Enginn er slasaður í hópnum en sumir eru orðnir þreyttir og kaldir eftir gönguna. Fólkið er þó vel búið að öðru leyti.

„Það var ákveðið að senda þarna mannskap upp úr nokkrum áttum til að ná til hópsins áður en ástandið versnaði,“ segir Davíð Már.

Björgunarfólk fer nú fótgangandi og á sleðum en einnig hefur verið óskað eftir snjóbílum til öryggis. Vonir standa til að björgunarsveitarfólk nái til hópsins á næstu tveimur tímunum og að honum verði þá komið niður af jöklinum. Ágætisveður hefur verið á svæðinu í dag en nokkuð hvasst.

Davíð Már segir að menn telji sig vita hvar hópurinn er. Björgunarsveitarfólkið haldi að svæðinu úr nokkrum áttum til að komast sem fyrst að honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×