Klinkið

Guð­mundur Andri verður að­stoðar­maður Loga

Ritstjórn Innherja skrifar
Loga og Guðmundi Andra er vel til vina, en í næstu viku kemur Guðmundur Andri til með að hefja störf sem aðstoðarmaður Loga.
Loga og Guðmundi Andra er vel til vina, en í næstu viku kemur Guðmundur Andri til með að hefja störf sem aðstoðarmaður Loga.

Guðmundur Andri Thorsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar.

Þetta herma heimildir Innherja. Stefnt er að því að Guðmundur Andri hefji störf í byrjun næstu viku en hann tekur við að Freyju Steingrímsdóttur, sem hefur gegnt starfi aðstoðarmanns Loga undanfarin ár en var nýlega ráðin samskiptastjóri BSRB.

Formenn stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, eiga rétt á að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf.

Guðmundur Andri sat á þingi fyrir Samfylkinguna frá 2017 til 2021. Hann sóttist eftir endurkjöri en náði ekki inn í þingkosningunum í haust og sagði við það tilefni:

„Ég mun sakna vinnufélaganna, kjörinna jafnt sem starfsfólksins, samvinnunnar þvert á flokka, rökræðunnar í þingsal, samskiptanna við kjósendur, mötuneytisins og auðvitað bílastæðisins – en ég mun ekki sakna átakanna, sviðsetninganna, leikritanna og löngu zoom-fundanna.“

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×