Neytendur

Listería fannst í reyktum laxi Ísfirðings

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Listería fannst í reyktum laxi og reyktum regnboga merktum Ísfirðingi.
Listería fannst í reyktum laxi og reyktum regnboga merktum Ísfirðingi. MAST

Bakterían Listeria monocytogenes, eða listería, greindist í sýnum af reyktum laxi og reyktu regnboga sem framleiddur var undir nafni Ísfirðings. Dreifing og sala afurðanna hefur verið stöðvuð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun. Þar segir að reykti laxinn ætti ekki að vera í dreifingu í verslunum en neytendur gætu átt vöruna í frysti eða kæli. 

Fiskvinnslan Hrefna hefur tilkynnt Matvælastofnun að vegna varúðarsjónarmiða sé varað við neyslu og varan innkölluð frá neytendum. Innköllunin nær til dagsetningarinnar: „Síðasti notkunardagur 14.02.2022“.

Framleiðslulotan var framleidd í desember, fryst hjá framleiðanda og sett á markað í janúar. Lotan var fyrst sett á markað í desember með síðasta notkunardegi 14.01.2022 og því er einnig varað við neyslu hennar. 

Nánar um vörulotu laxins:

  • Vöruheiti: Ísfirðingur - REYKTUR LAX

  • Dreifing: Til verslana Nettó, Kjörbúðanna, Krambúðanna, Iceland, Melabúðarinnar, Me og Mu, Heimkaup.is og Hraðbúðarinnar Hellissandi

  • Geymsluskilyrði: Kælivara við 0-4 °C

  • Síðasti notkunardagur: 14.1.02022; 14.02.2022; 08.03.2022

  • Framleiðandi: Fiskvinnslan Hrefna

Þá greindist listería einnig í reyktum regnboga með síðasta notkunardegi 08.03.2022. 

Nánar um vöruna:

  • Vöruheiti: Ísfirðingur - REYKTUR REGNBOGI
  • Framleiðandi: Fiskvinnslan Hrefna
  • Síðasti notkunardagur: 08.03.2022
  • Geymsluskilyrði: Kælivara við 0-4 °C
  • Dreifing: Til verslana Nettó, Kjörbúðanna, Krambúðanna, Iceland, Melabúðarinnar, Me og Mu og Heimkaup.is

Neytendur sem keypt hafa vörurnar eru beðnir að farga henni eða skila með því að hafa samband við Fiskvinnsluna Hrefnu ehf, s. 8943653 eða netfang fiskvinnslanhrefna@gmail.com.

Listería getur orsakað sjúkdóm hjá bæði mönnum og dýrum og kallast sá sjúkdómur listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarleg einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×