Erlent

Ríkis­stjórnin farin frá og lýst yfir neyðar­á­standi

Atli Ísleifsson skrifar
Óeirðalögreglumenn gráir fyrir járnum í stórborginni Almaty í Kasakstan.
Óeirðalögreglumenn gráir fyrir járnum í stórborginni Almaty í Kasakstan. AP

Kassym-Jomart Tokayev, forseti Kasakstans, hefur lýst yfir tveggja vikna neyðarástandi á ákveðnum svæðum í landinu í kjölfar mótmæla síðustu vikna.

BBC segir frá því að hækkun eldsneytisverðs hafi verið mótmælt víða um land og hafi forsetinn ákveðið að grípa til aðgerða eftir að lögregla þurfti að beita táragasi gegn mómælendum í stórborginni Almaty og kveikt hafði verið í bílum.

Tokayev samþykkti svo í morgun afsögn forsætisráðherrans Askar Mamin og ríkisstjórnar hans. Aðstoðarforsætisráðherrann Alikhan Smailov hefur verið skipaður forsætisráðherra til bráðabirgða.

Forsetinn Tokayev sagði í ávarpi til þjóðarinnar að árásir mótmælenda á opinberar skrifstofur hafi verið „algerlega ólöglegar“.

Neyðarástandi hefur lýst yfir í Almaty og í Mangistau-héraði í vesturhluta landsins. Hefur útgöngubanni verið komið á að nóttu og bann við samkomum.

Yfirvöld hafa sömuleiðis lokað á ýmsa samskiptamiðla, þeirra á meðal Telegram, Signal og Whatsapp, til að torvelda samskipti mótmælenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×