Innlent

Einn gestur á dag um ára­mótin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Covid-deild Landspítalans.
Frá Covid-deild Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Sjúklingar á Landspítala mega fá til sín einn gest á dag frá hádegi á gamlársdag og á nýársdag, en annars gildir heimsóknarbann á spítalanum.

Gestir verða að vera fullbólusettur eða hafa fengið Covid á síðustu sex mánuðum til þess að mega koma í heimsókn og verður að bera grímu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttanefnd spítalans. Þar kemur fram að stjórnendur deilda á spítalanum geti veitt undanþágur frá heimsóknarreglum í sérstökum tilvikum.

Þrír af hjartadeild farnir annað

Í gær var spítalinn færður á neyðarstig en 21 liggur nú inni á spítalanum með Covid-19. Sex liggja á gjörgæslu, þar af fimm á öndunarvél. Fjórir voru lagðir inn í gær og fjórir útskrifaðir.

Í fyrradag var greint frá því að sjö sjúklingar á hjartadeild spítalans hefðu greinst með Covid. Af þeim hafa þrír verið útskrifaðir heim eða á aðrar stofnanir og mögulegt er að frekari flutningar af spítalanum verði úr þessum hópi.

Einn starfsmaður Landakots hefur þá greinst með Covid, í skimun sem fór þar fram í kjölfar smits hjá sjúklingi á deildinni.

Yfir tuttugu starfsmenn greinast daglega

Nú eru 5.834 í fjarþjónustu hjá Covid-göngudeild spítalans, þar af 1.262 börn. Fjölgað hefur hratt í hópi skjólstæðinga deildarinnar á milli daga, enda hafa met í tölum yfir nýgreinda með Covid hér á landi hríðfallið síðustu daga.

Nú eru 120 starfsmenn Landspítala í einangrun og daglega greinast á þriðja tug starfsmanna til viðbótar. Mikill fjöldi er í sóttkví og er hluti starfsliðsins í vinnusóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×