Erlent

Öldungadeildin samþykkir ákærur á hendur Bolsonaro

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bolsonaro var harðlega gagnrýndur fyrir að segja íbúum landsins að „hætta að væla“ daginn eftir að metfjöldi lést af völdum Covid-19.
Bolsonaro var harðlega gagnrýndur fyrir að segja íbúum landsins að „hætta að væla“ daginn eftir að metfjöldi lést af völdum Covid-19. epa/Joedson Alves

Öldungadeildarþingmenn í Brasilíu hafa samþykkt að ákæra forseta landsins, Jair Bolsonaro, fyrir framgöngu hans í kórónuveirufaraldrinum. Forsetinn verður meðal annars ákærður fyrir glæpi gegn mannkyni en 600 þúsund hafa látist vegna Covid-19 í landinu.

Forsetinn, sem ávallt hefur gert afar lítið úr faraldrinum, segist saklaus af öllu en málið hefur þó laskað vinsældir hans samkvæmt skoðannakönnunum. 

Það verður nú sent til yfirsaksóknara landsins, sem reyndar var skipaður af Bolsonaro sjálfum, og því engin trygging fyrir því að ákært verði í málinu að lokum, þrátt fyrir vilja þingsins.

Samkvæmt skýrslu um viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum gerðust þau meðal annars sek um að ákveða að sitja aðgerðalaus hjá og leyfa honum að fara óheft um landið. Forsetinn væri sá sem bæri mesta ábyrgð.

Hann er sakaður um að brjóta gegn réttindum landsmanna, misnota almannafé og breiða út rangar upplýsingar um faraldurinn. Skýrsluhöfundar leggja einnig til að tvö fyrirtæki og 77 aðrir einstaklingar verið sóttir til saka, þeirra á meðal þrír synir Bolsonaro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×