Erlent

Grunaður morðingi lagði á flótta með tígris­dýr í bílnum

Atli Ísleifsson skrifar
Victor Hugo Cuevas var ákærður fyrir morð í nóvember síðastliðinn, en var sleppt gegn tryggingu. Hann er nú aftur í haldi lögreglu.
Victor Hugo Cuevas var ákærður fyrir morð í nóvember síðastliðinn, en var sleppt gegn tryggingu. Hann er nú aftur í haldi lögreglu. lögregla í houston/twitter

Lögregla í Houston í Texas hefur handtekið 26 ára mann sem grunaður er um morð eftir að hann lagðist á flótta með tígrisdýr í bílnum sínum. Tígrisdýrsins er enn leitað.

Íbúar í hverfi í vesturhluta Houston höfðu samband við lögreglu og tilkynntu um að tígrisdýr gengi laust í garði í íbúahverfi. Hinn grunaði, Victor Hugo Cuevas, hafi á sínum tíma verið sleppt gegn tryggingu, á meðan réttarhalda er beðið að því er segir í frétt CNN.

Lögreglumaður á frívakt hélt að umræddu húsi til að ræða við Cuevas, en þegar lögregla mætti á staðinn tók hinn grunaði tígrisdýrið, kom því fyrir í hvítum sendibíl sínum og keyrði á brott í skyndi.

Myndbönd af tígrisdýrinu þar sem það gengur laust hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum eftir að málið kom upp.

Ron Borza, lögreglustjóri í Houston, sagði á fréttamannafundi í gær að eftirförin hafi verið stutt eftir að Cuevas flúði af vettvangi. Var hinn grunaði handtekinn, en ekki sé vitað hvar tígrisdýrið haldi til.

Lögregla fékk ábendingu um að Cuevas hafi einnig haldið fjölda apa á heimili sínu, en samkvæmt lögum í Texas er slíkt ekki ólöglegt. Þó gæti hann átt yfir höfði sér allt að fimm hundruð dala sekt, rúmlega 60 þúsund krónur, fyrir að vera með tígrisdýr á heimili sínu.

Verjandi Cuevas segir skjólstæðing sinn ekki vera eiganda tígrisdýrsins, og að hann vilji gera allt sem að í sínu valdi standi til að hafa uppi á dýrinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×