Innlent

„Ég mun sjá hvað ég get gert betur“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson hefur verið formaður VR undanfarin fjögur ár og verður áfram til 2023 hið minnsta.
Ragnar Þór Ingólfsson hefur verið formaður VR undanfarin fjögur ár og verður áfram til 2023 hið minnsta. Vísir/Vilhelm

„Ég er alveg ótrúlega ánægður og þakklátur,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson augnablikum eftir að hafa verið endurkjörinn formaður VR. Hann segist vera að melta niðurstöðuna og lesa í tölurnar.

Metþátttaka var í kosningunum í ár og nokkuð öflug kosningabarátta milli Ragnars og Helgu Guðrúnar Jónasdóttur mótframbjóðanda hans. Hann segir kosningabaráttuna hafa verið drengilega að hans mati, hann sé sáttur við sinn hlut í henni og framlag.

„Það má alltaf gagnrýna eitthvað í kosningabaráttu en ég er ánægður með mitt framlag.“

Hann segir sigurinn að mörgu leyti styrkja umboð sitt sem formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins.

„Það er mjög erfitt að vera í svona risastóru stéttarfélagi þar sem hóparnir eru svo ólíkir. Það er mjög mikil áskorun að gera öllum til geðs,“ segir Ragnar Þór.

Hann ætlar að taka niðurstöðu kosninganna fyrst og fremst og skoða hana, með tilliti til stuðningsmanna sinna og líka þeirra sem vildu að félagið færi í annan farveg.

„Ég mun sjá hvað ég get gert betur,“ segir Ragnar Þór. Hann sé alltaf að læra, samfélagið breytist og tímarnir með. Hann sjái ekki fyrir sér stefnubreytingu en hann muni draga lærdóm af kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×