Innlent

Ekki lengur rafmagnslaust á Vesturlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá viðgerð Landsnets á Hrútatungulínu 1 í gærkvöldi.
Frá viðgerð Landsnets á Hrútatungulínu 1 í gærkvöldi. Landsnet

Viðgerð vegna bilunar á Hrútatungulínu 1 við tengivirkið á Vatnshömrum lauk um hálf tvö í nótt og rafmagn var komið á allt kerfið skömmu síðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti gekk viðgerðin vel en bilunin olli nokkurra klukkustunda rafmagnsleysi víða á Vesturlandi.

Greint var frá því á Vísi í gærkvöldi að truflun hefði orðið á Vatnshamralínu Landsnets og kom upp spennuhækkun í dreifikerfinu. Rafmagnslaust varð meðal annars í Borgarfirði og á Snæfellsnesi.

Samkvæmt tilkynningum á vef Rarik var rafmagn komið aftur á milli klukkan eitt og tvö í nótt á Vesturlandi en nokkru fyrr í Húnaþingi eða laust fyrir klukkan hálfellefu í gærkvöldi.

Fréttin var uppfærð klukkan 07:33 eftir að tilkynning barst frá Landsneti vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×