Innlent

Skjálfti í Bárðarbunguöskjunni í nótt

Sylvía Hall skrifar
Samkvæmt Veðurstofunni eru engin ummerki um gosóróa.
Samkvæmt Veðurstofunni eru engin ummerki um gosóróa. Vísir

Jarðskjálfti að stærð 4,5 varð rétt fyrir klukkan fjögur í nótt í norðaustanverðri Bárðarbunguöskjunni. Eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið en engin merki eru um gosóróa, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Síðast varð skjálfti af svipaðri stærðargráðu í Bárðarbungu, sem er á norðvestanverðum Vatnajökli, 5. janúar síðastliðinn.

Eftirskjálftarnir hafa verið litlir til þessa. Sá stærsti mældist 1,2 að stærð um fjórum mínútum eftir að aðalskjálftinn reið yfir. Fjórir skjálftar hafa svo mælst í viðbót en allir undir einum að stærð. Skjálftar af þessari stærðargráðu eru algengir í Bárðarbungu en jarðhræringarnar þar tengjast ekkert hræringum á Reykjanesskaga, að sögn náttúruvársérfræðings.

Á vef Veðurstofunnar er þess getið að þónokkur skjálftavirkni hafi verið undanfarið á Reykjanesskaga í tengslum við landris á svæðinu. Talið er að líklegasta skýringin á landrisinu sé kvikuinnskot sem myndast í jarðskorpunni.

Vísbendingar eru um þrjú kvikuinnskot á Reykjanesskaga, tvö undir svæðinu norðvestan við fjallið Þorbjörn á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi og eitt undir Sýrfelli, á átta til þrettán kílómetra dýpi, vestar á Reykjanesskaga




Fleiri fréttir

Sjá meira


×