Erlent

Smitum fjölgar ört í Þýskalandi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Þjóðverjar hafa hingað til sloppið heldur vel frá faraldrinum en óveðursskýin hrannast nú upp. 
Þjóðverjar hafa hingað til sloppið heldur vel frá faraldrinum en óveðursskýin hrannast nú upp.  Sean Gallup/Getty Images

Staðfest tilfelli kórónuveirunnar í Þýskalandi í gær voru 6.638 og hafa þau aldrei verið fleiri, en fyrra met var sett þann 28. mars síðastliðinn. Í heildina hafa nú rúmlega 350 þúsund Þjóðverjar smitast af veirunni. Ef miðað er við önnur Evrópuríki hafa Þjóðverjar komist frekar vel frá faraldrinum hingað til miðað við fólksfjölda en svo virðist sem að nú sé ástandið að versna.

Angela Merkel kanslari varar við því að ef fram fer sem horfir, gætu rúmlega nítján þúsund manns verið að greinast á hverjum degi. Hún tilkynnti um nýjar samkomutakmarkanir í landinu í gær og segir gríðarlega mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að veiran fari í veldisvöxt.

Ef landsvæði í Þýskalandi greinir 35 ný smit á meðal hverra hundrað þúsund íbúa í viku hverri þá skal setja á grímuskyldu alls staðar þar sem fólk kemur saman til lengri tíma. Þá verða samkomutakmarkanir settar á þannig að aðeins mega 20 koma saman á almannafæri og 15 í einkarýmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×