Innlent

Covid-smit hjá starfsmönnum tveggja íbúðakjarna fyrir fatlað fólk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Um er að ræða starfsmenn við íbúðarkjarna fyrir fatlað fólk í Grafarvogi og Breiðholti.
Um er að ræða starfsmenn við íbúðarkjarna fyrir fatlað fólk í Grafarvogi og Breiðholti. Vísir/Vilhelm

Tveir starfsmenn íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Reykjavík hafa greinst með Covid-19. Gripið hefur verið til nauðsynlegra aðgerða með það að leiðarljósi að hefta frekara smit, án þess að skerða þjónustu við íbúa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Um er að ræða tvo starfsmenn íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Breiðholti og Grafarvogi. Báðir starfa þeir náið með einstaklingum sem þurfa sólarhringsþjónustu.

Eins og fram kom á Vísi fyrir hádegi greindust þrettán Covid-19 smit innanlands í gær og var aðeins einn í sóttkví. Ekki hafa fleiri greinst með veiruna á einum sólarhring síðan í byrjun ágúst.

Tryggja áfram þjónustu og stuðning

„Aðgerðaáætlun vegna smitanna hefur verið unnin í nánu samstarfi við smitrakningateymi Almannavarna og Embætti landlæknis en neyðarstjórn velferðarsviðs hélt samráðsfund í morgun þar sem línur voru lagðar um næstu skref,“ segir í tilkynningunni.

Tryggt verði að íbúar fái áfram þá þjónustu og stuðning sem þeir þurfi á að halda við sitt daglega líf. Íbúar kjarnanna tveggja búa allir í eigin íbúðum og fá því alla nauðsynlega þjónustu inn á sín heimili.

Í íbúðakjarnanum í Grafarvogi þurfa sex starfsmenn að fara í sóttkví og um 20 í Breiðholti. Unnið er að því að manna vaktirnar með öðru starfsfólki velferðarsviðs. Báðir íbúarnir sem fengu þjónustu viðkomandi starfsmanna eru komnir í sóttkví. Þeir fara í sýnatöku í dag og fylgst verður náið með líðan þeirra.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar rekur um 70 heimili og dvalarstaði þar sem haldið er úti órofinni þjónustu allan sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×