Innlent

Vara viðskiptavini Íslandsbanka við víðtækri netárás

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Tölvuþrjótar hafa reynt að komast yfir lykilorð viðskiptavina Íslandsbanka í dag. 
Tölvuþrjótar hafa reynt að komast yfir lykilorð viðskiptavina Íslandsbanka í dag. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar viðskiptavini Íslandsbanka við tilraunum svikahrappa á netinu til að komast yfir lykilorð þeirra. 

Í dag hefur víðtæk netárás staðið yfir en hún hefur einkum beinst að viðskiptavinum bankans. Í skilaboðum til viðskiptavinanna er því ranglega haldið fram að Íslandsbanki hafi uppfært öryggiskerfið sitt en sökum þess þurfi viðtakandinn að skrá sig inn á reikninginn sinn í gegnum hlekk tölvuþrjótanna til að koma í veg fyrir lokun reikningsins. 

Lögreglan biðlar til fólks að láta ekki blekkjast.

Fréttastofa greindi frá því í upphafi vikunnar að netsvindl sem Íslendingar hafa orðið fyrir á undanförnum vikum hafi verið sérsniðið að Íslendingum. Þar voru nöfn og viðmót íslenskra fyrirtækja og stofnana notuð til að komast yfir kortaupplýsingar.

Rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir skilaboðin frá þrjótunum vera sannfærandi. Hann ræður fólki alfarið frá því að fylgja tenglum sem berast með skilaboðum. Slíkir hlekkir séu nær alltaf ávísun á svindl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×