Erlent

Fjár­mála­ráð­herra Kanada hættir

Atli Ísleifsson skrifar
Bill Morneau hefur gegnt embætti fjármálaráðherra landsins frá því að Trudeau tók við embætti forsætisráðherra, eða árið 2015.
Bill Morneau hefur gegnt embætti fjármálaráðherra landsins frá því að Trudeau tók við embætti forsætisráðherra, eða árið 2015. Getty

Bill Morneau, fjármálaráðherra Kanada, hefur tilkynnt um afsögn sína í kjölfar fregna um deilur hans og Justin Trudeau forsætisráðherra um fjárútlát kanadíska ríkisins til verndar efnahag landsins.

Morneau greindi frá afsögn sinni í gær og á sama tíma sagðist hann einnig ætla sér að láta af þingsæti. Hafði hann ekki verið beðinn um að segja af sér, en bætti því við að hann væri ekki lengur réttur maður til að gegna starfinu.

Morneau sagðist ekki ætla að sækjast eftir endurkjöri sem þingmaður, heldur þess í stað sækjast eftir því að verða næsti framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Trudeau lýsti yfir stuðningi við fjármálaráðherra sinn síðast í síðustu viku eftir að sögusagnir fóru á kreik um ósætti ráðherranna. Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft mikil áhrif á kanadískan efnahag, og hefur Trudeau sagt að mikil fjárútlát ríkisins nú vera nauðsynleg til að halda þjóðinni „á floti“.

Morneau hefur gegnt embætti fjármálaráðherra landsins frá því að Trudeau tók við embætti forsætisráðherra, eða árið 2015. Þakkaði Trudeau Morneau fyrir störf sín sem fjármálaráðherra og að kanadísk stjórnvöld myndu styðja hann ötullega til að verða næsti framkvæmdastjóri OECD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×