Erlent

Aflýsa hátíðarhöldum á degi heilags Patreks

Kjartan Kjartansson skrifar
Búálfarnir þagna. Ekkert verður af hátíðarhöldum á degi heilags Patreks í ár. Hátíðin í Dyflinni hefur laðað að sér hálfa milljón ferðamanna undanfarin ár.
Búálfarnir þagna. Ekkert verður af hátíðarhöldum á degi heilags Patreks í ár. Hátíðin í Dyflinni hefur laðað að sér hálfa milljón ferðamanna undanfarin ár. Vísir/Getty

Ákveðið hefur verið að aflýsa öllum skrúðgöngum í tilefni af degi heilags Patreks á Írlandi af ótta við kórónuveiruna sem breiðist nú út um heiminn. Rúmlega tuttugu tilfelli hafa greinst á Írlandi, þar af fyrsta samfélagssmitið í síðustu viku.

Mikið átti að vera um dýrðir á degi heilags Patreks, eins af verndardýrlingum Írlands, 17. mars. Um hálf milljón ferðamanna alls staðar að úr heiminum kemur til Dyflinnar árlega til að fagna deginum þar.

Ekkert verður af hátíðarhöldunum í ár. Ákvörðun um að slá þau út af borðinu var tekin á fundi opinberrar nefndar um kórónuveirunnar í dag, að sögn írskra fjölmiðla.

Síðast var hátíðarhöldum á degi heilags Patreks frestað vegna gin- og klaufaveiki árið 2001. Skrúðgöngur og aðrir viðburðir fóru þá fram tveimur mánuðum síðar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Yfirvöld víða um heim hafa gripið til ýmissa takmarkanna til þess að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar, þar á meðal að leggja niður skólahald tímabundið, banna samkomur og takmarka ferðalög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×