Innlent

Knattspyrnumaður sýknaður af kynferðisbroti gegn 15 ára stúlku

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Fréttablaðið/gva

Karlmaður um þrítugt var í Héraðsdómi Reykjaness í upphafi árs sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn fimmtán ára stúlku.

Manninum var gefið að sök að hafa stungið fingrum í leggöng stúlkunnar meðan hún svaf. Það sem réð úrslitum var að erfðaefni hennar fannst ekki á fingrum hans.

Atvik málsins áttu sér stað aðfaranótt 7. ágúst 2016. Maðurinn hafði keppt í knattspyrnu daginn áður, farið í brúðkaup um kvöldið og endað heima hjá móður sinni. Þar voru fyrir yngri systir hans og vinkona hennar.

Um nóttina vaknaði vinkonan og sá manninn við hlið sér. Sagði hún að maðurinn hefði sett fingur sína í leggöng hennar en látið af háttseminni er hann sá að hún hafði rumskað. Maðurinn neitaði því og sagðist aðeins hafa lagst við hlið hennar.

Lögregla var kölluð til og handtók manninn á vettvangi. Tók lögreglan sýni úr nærbuxum stúlkunnar og af höndum brotaþola. Í buxunum fannst aðeins erfðaefni stúlkunnar en ekki á höndum mannsins. Ekkert erfðaefni úr honum fannst í leggöngum stúlkunnar. Sérfræðingur í réttarvísindum sagði að slíkt útilokaði ekki að fingur hefðu farið þangað enda myndi erfðaefni hins grunaða „drukkna“ í DNA hennar. Þá gæti maðurinn hafa þvegið hendurnar áður en lögregla mætti á staðinn.

Dómari mat framburð beggja trúverðugan. Orð stæði gegn orði. Úrslitaatriði væri að baðherbergisvaskur hafði ekki verið rannsakaður. Þar hefði mögulega mátt finna ummerki þess að ákærði hefði skolað hendur sínar. Vafi um sekt hans var metinn honum í hag.

Sakarkostnaður, alls rúmar tvær milljónir króna, greiðist úr ríkissjóði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.