Innlent

Þriðjungi lóða í Skarðshlíð skilað aftur til bæjarins

Skarðshlíðarhverfið á að byggja upp á næstu árum. Það hefur nánast verið tilbúið til uppbyggingar í um áratug. Fréttablaðið/Eyþór
Skarðshlíðarhverfið á að byggja upp á næstu árum. Það hefur nánast verið tilbúið til uppbyggingar í um áratug. Fréttablaðið/Eyþór

Hafnarfjörður Þriðjungi þeirra lóða sem úthlutað var frá Hafnarfjarðarbæ í öðrum áfanga Skarðshlíðarhverfis hefur verið skilað aftur til bæjarins. Hverfið hefur staðið nánast tilbúið í áratug. Bæjarstjóri segir ýmsar ástæður fyrir því að lóðum hafi verið skilað en fjármögnunarvandi og háspennulínur þvert yfir hverfið hafi verið gefnar upp sem ástæður.

Af þeim 32 lóðum sem úthlutað var hefur ellefu lóðum verið skilað aftur til bæjarins. Skarðshlíðarhverfið hefur staðið nánast tilbúið síðan efnahagshrunið dundi yfir á haustmánuðum fyrir hartnær áratug.

Bæjarstjóri telur ólíklegt að skil á lóðum tefji uppbygginguna. „Nei, það held ég ekki, við munum úthluta þessum lóðum aftur og erum að fara yfir hversu margar lóðirnar eru í heildina. Þær verða svo auglýstar aftur. Hinir eru komnir af stað með teikningar og annað slíkt,“ segir Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri. „Það er nú eitthvað af þessu vegna þess að fólk hefur ekki getað fjármagnað þetta. Svo hef ég líka heyrt af einum sem var í óvissu um hvenær háspennulínurnar færu. Annað kann ég ekki að skýra.“

Skipulagssvæði Skarðshlíðar er um 30 hektarar að stærð. Í stefnu bæjarins segir að stefnt sé að því að bjóða eftirsóknarvert búsetu­umhverfi með því að leggja áherslu á vandað bæjarskipulag í tengslum við ósnerta náttúru.

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingar í minnihluta bæjarins, segir skipulagsbreytingar á svæðinu hafa tafið uppbyggingu hverfisins. „Í ljósi aðstæðna á húsnæðismarkaði og þessa litla framboðs á lóðum fyrir íbúðarhúsnæði þá er eitthvað sem má skoða í þessu ferli. Til dæmis hvort síendurteknar skipulagsbreytingar á þessu svæði hafi reynst skynsamlegar,“ segir Gunnar Axel. „Það hefur legið fyrir að þarna hefur verið heilt hverfi tilbúið til úthlutunar og í raun ótrúlegt að það hafi verið legið á því fram til loka kjörtímabilsins og ákveðið að endurskipuleggja hverfið í þriðja skipti á örfáum árum.“

sveinn@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.