Innlent

IKEA ætlar að selja fjórfalt ódýrari rafhjól

Baldur Guðmundsson skrifar
Þórarinn Ævarsson segist ætla að mokselja rafhjól, ekki síst til starfsfólks IKEA.
Þórarinn Ævarsson segist ætla að mokselja rafhjól, ekki síst til starfsfólks IKEA. Fréttablaðið/Ernir
„Ég reikna með að byrja að selja þau um leið og aðstæður leyfa, kannski í apríl eða maí,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Verslunin ætlar í vor að hefja sölu á rafhjólum á verði sem ekki á sér hliðstæðu á Íslandi. Þórarinn stefnir á að hjólið muni kosta minna en hundrað þúsund krónur.

Nýtt rafhjól í íslenskum verslunum kostar oftast á bilinu 350-400 þúsund krónur en einnig er hægt að fá mun dýrari hjól. IKEA-hjólið mun þannig kosta um það bil fjórðung af verði dæmigerðs rafhjóls.

Hjólið, sem er fjallahjól, er búið 313 vattstunda rafhlöðu, 21 gírs Shimano Revoshift gírskiptingu, 29 tommu dekkjum, dempurum að framan, diskabremsum og vegur um 28 kíló með rafhlöðu. Þá er hjólið samanbrjótanlegt, svo það passar auðveldlega í farangursrými á venjulegum fólksbíl.

Blaðamaður fékk að reynsluaka hjólinu hjá IKEA en hann býr að þeim samanburði að hjóla daglega til og frá vinnu á nýlegu Cube-rafhjóli. Í samanburði er IKEA-hjólið nokkuð gott.

Blaðamaður hjólaði frá IKEA, í gegn um bílastæðin og upp brattan malarstíg sunnan við Costco. Hann hjólaði fram hjá Náttúrufræðistofnun og upp í hverfið fyrir ofan, áður en hann hjólaði aftur að IKEA. Dekkin eru nokkuð breið og henta vel til hjólreiða á grófu undirlagi. Dempararnir að framan vinna í sömu átt hvað það varðar.

Mótorinn, sem heita má hljóðlaus, byrjar að hjálpa um leið og hjólreiðamaðurinn byrjar að hjóla. Ef hjólreiðamaðurinn tekur pásu gerir mótorinn það líka. Hægt er að velja um sex mismunandi stillingar en þær stjórna því hversu mikla hjálp hjólreiðamaðurinn fær. Eins og á öðrum rafhjólum slær mótorinn út þegar 25 kílómetra hraða á klukkustund er náð. Mótorinn er ekki alveg eins fljótur að svara og á Cube-rafhjólinu. Á hinn bóginn hjálpar hann svolitla stund, í eina til tvær sekúndur, eftir að hjólreiðamaðurinn hættir að hjóla.

Erfitt er að leggja mat á kraftinn í hjólinu á þessum stutta hjólreiða­túr en í stuttu máli má segja að krafturinn sé heldur minni en á Cube-hjólinu. Afköstin eru uppgefin 250 vött. Krafturinn kemur þó væntanlega þeim hjólreiðamanni sem prófar rafhjól í fyrsta sinn á óvart. Hjólreiðamaður í engu formi getur auðveldlega haldið 23 til 25 kílómetra hraða á sæmilega sléttu undirlagi. Brekkur verða leikur einn, ef miðlungs hár gír er valinn.

Blaðamaður, sem er í skrifstofuformi, fann ekkert fyrir því að hjóla upp í hverfið fyrir aftan Costco, þótt um nokkra hækkun sé að ræða. Ef þyngra varð að hjóla var auðvelt að skipta í léttari gír, til að spara orku hjólreiðamannsins.



Svona lítur rafhjólið út samanbrotið. Það ætti að passa í flesta bíla.
Í bæklingi sem fylgir hjólinu, þar sem lesa má um fínni blæbrigði eigin­leika þess, kemur fram að á jafnsléttu, með mikilli hjálp rafmagns og litlu framlagi hjólreiðamanns dregur hjólið um 33 kílómetra. Tvöfalda þá vegalengd kemst hjólreiðamaður á einni hleðslu ef hann stillir á miðlungsmikla hjálp mótors og leggur mikið af mörkum sjálfur. Fleiri breytur hafa áhrif á drægið en þar má nefna brekkur í landslagi, þyngd hjólreiðamanns og færi. Blaðamaður eyddi örfáum prósentustigum af hleðslunni í þær tíu mínútur sem hann hjólaði.

Þórarinn segir að prófanir á hjólinu hafi komið vel út, en ýmist er hægt að kaupa hjól fyrir karla eða konur. „IKEA er búið að vera með þessu hjól í prufusölu á ákveðnum mörkuðum og hefur reynslan verið afar góð. Það hafa ekki verið að koma upp nein vandamál,“ segir hann. Hann bindur vonir við að „mokselja“ þessi hjól.

Á hjólinu er 313 vattstunda rafhlaða, sem taka má af með einu handtaki. Um sex stundir tekur að fullhlaða rafhlöðuna. Á flestum nýjum rafhjólum sem til sölu eru í dag er 400 eða 500 vattstunda rafhlaða. Drægið er því sem því nemur minna, en hleðslan ætti þó auðveldlega að duga flestum til að komast til og frá vinnu, til dæmis.

Rafvæðing í samgöngum er Þórarni hugleikin en hvergi eru fleiri hleðslustæði fyrir rafbíla en við IKEA. Þau eru 60 talsins, þar af tíu fyrir starfsmenn. Hann hyggst bjóða starfsfólki sínu lán til að kaupa rafhjól, jafnvel helming kaupverðsins til nokkurra mánaða, sem samgöngustyrkur verður síðan nýttur til að greiða niður.

Þórarinn segist stefna á að útsöluverðið verði á bilinu 85 til 100 þúsund krónur. Fyrsta pöntun hafi hljóðað upp á 280 eintök. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×