Innlent

Jóhanna opnar gleðigönguna fyrir Færeyinga

Sæunn Gísladóttir skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, sem var fyrsti opinberlega samkynhneigði þjóðarleiðtogi heims, mun opna áttundu hinsegin gönguna í Færeyjum þann 27. júlí næstkomandi.
Jóhanna Sigurðardóttir, sem var fyrsti opinberlega samkynhneigði þjóðarleiðtogi heims, mun opna áttundu hinsegin gönguna í Færeyjum þann 27. júlí næstkomandi. vísir/gva

Jóhanna Sigurðardóttir, sem var fyrsti opinberlega samkynhneigði þjóðarleiðtogi heims, mun opna áttundu hinsegin gönguna í Færeyjum þann 27. júlí næstkomandi.

Jóhönnu er meðal annars boðið að taka þátt í ár til að varpa ljósi á þær framfarir sem hafa átt sér stað í réttindabaráttu hinsegin fólks í Færeyjum á síðustu árum. Það vakti athygli árið 2010 þegar Jóhanna Sigurðardóttir fór í opinbera heimsókn til Færeyja að Jenis av Rana, formaður Miðjuflokksins í Færeyjum og þingmaður á færeyska Lögþinginu, neitaði að mæta til kvöldverðarboðs með Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og fyrr á þessu ári voru hjónabönd samkynhneigðra samþykkt á færeyska lögþinginu.

Áætlað er að þúsundir muni ganga til stuðnings hinsegin fólki þennan dag. Jónína Leósdóttir, kona Jóhönnu, mun einnig taka þátt í göngunni. Jóhanna og Jónína hafa undanfarið sótt marga viðburði sem tengjast réttindabaráttu hinsegin fólks. Meðal annars setti Jóhanna LGBT, menningar- og viðskiptahátíð á Tenerife, ásamt borgarstjóranum og tóku þær Jónína í lok júní þátt í mannréttindaráðstefnu í tengslum við World Pride í Madrid í vikunni.

Ekki náðist samband við Jóhönnu við vinnslu fréttarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×