Lífið

Bítlasérfræðingur á leiðinni til landsins

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Friðbert Elí Friðbertsson, Kristín Magdalena Kristjánsdóttir og dóttir þeirra Svandís Hekla hittu Mark Lewisohn ásamt umboðsmanni hans, KT Forster, í London í fyrra, og úr varð að hann mætir á Klakann í haust.
Friðbert Elí Friðbertsson, Kristín Magdalena Kristjánsdóttir og dóttir þeirra Svandís Hekla hittu Mark Lewisohn ásamt umboðsmanni hans, KT Forster, í London í fyrra, og úr varð að hann mætir á Klakann í haust.
„Hann er fróðasti Bítlasérfræðingur í heimi og það er óumdeilt. Hann er eini svona „professional“ Bítlasérfræðingurinn í heiminum og ætlar að koma til landsins í tilefni útgáfunnar,“ segir Bítlaáhugamaðurinn Friðbert Elí Friðbertsson. Eiginkona hans, Kristín Magdalena Kristjánsdóttir, þýddi bókina The Beatles: All These Years, Volume 1 – Tune In eftir Bítlasérfræðinginn Mark Lewisohn, sem er talinn vera allra fróðasti maður heims um Bítlana. Þau gefa bókina út saman.

Bókin, sem mun bera titilinn Bítlarnir telja í, kom út í Bretlandi og Bandaríkjunum árið 2013 og er væntanleg til útgáfu hér á landi í september.

„Við hjónin keyptum útgáfuréttinn á bókinni áður en hún kom út. Konan mín er þýðandi og ég er rosalega mikill Bítlaáhugamaður þannig að við vinnum þetta saman. Við erum búin að þýða hana og nú er verið að lesa hana yfir. Við stefnum á að koma henni út í september og Mark ætlar að koma til landsins í kjölfarið,“ útskýrir Friðbert Elí.

Mark Lewisohn segir að bókin sé eina bókin um Bítlana sem segi rétt frá öllu í tengslum við snillingana frá Liverpool.
Það liggur ekki fyrir hvenær Bítlasérfræðingurinn kemur nákvæmlega til landsins en það verður um svipað leyti og bókin kemur út. „Fólk mun fá að hitta hann og getur fengið hann til að árita eintak af bókinni. Mig langar að fá hann til að halda fyrirlestur, því hann er svo fróður og góður að segja frá. Hann hefur til dæmis haldið fyrirlestur um myndirnar sem eru í bókinni en þær eru 60 talsins og það er rosalega fróðlegt. Það verður gaman fyrir Bítlaaðdáendur og -áhugamenn að hitta hann,“ segir Friðbert Elí.

Talsverður fjöldi bóka hefur komið út í tengslum við Bítlana og hefur Mark Lewisohn einnig gefið út nokkrar bækur um Bítlana en hann segir þó sjálfur að umrædd bók sé eina bókin sem hafi vantað í Bítlabókasafnið. Hann segir að bókin sé eina bókin um Bítlana sem segi rétt frá öllu í tengslum við snillingana frá Liverpool. „Mark gaf út bókina The Complete Beatles Recording Sessions: The Official Story of the Abbey Road Years árið 1988 eftir að hafa hlustaði á allar upptökur sem til eru af Bítlunum. Bítlarnir veittu honum aðgang að öllum þeim upptökum sem þeir tóku upp í Abbey Road og er hann eini maðurinn sem hefur hlustað á allar upptökurnar þeirra,“ segir Friðbert Elí.

Þá vann Mark með Bítlunum persónulega. „Hann var að vinna fyrir Paul McCartney í tengslum við útgáfumál og annað. Hann sá einnig um útgáfu heimildarmyndarinnar The Beatles Anthology sem kom út í átta hlutum á DVD. Það er eina sanna heimildarmyndin um Bítlana því hún er sú eina sem þeir hafa gefið út sjálfir.“

Bókin er um þúsund blaðsíður.
Mark var í tíu ár að skrifa bókina og fór stór hluti þess tíma í að leita upplýsinga. Hann hafði rosalega sterk tengsl inn í innsta hring tengdan Bítlunum og fékk upplýsingar sem enginn annar hafði. „Það er rosalega margt nýtt í þessari bók, upplýsingar sem voru ekki þekktar áður. Hann afsannar sumar kenningar sem hafa verið á kreiki,“ útskýrir Friðbert Elí.

Bókin er um þúsund blaðsíður og flutti Mark meðal annars til Liverpool til þess að setja sig inn í aðstæður. „Hann fletti öllum dagblöðum frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar í Liverpool sem sýnir okkar að hann hefur lagt rosalega mikið á sig.“

Friðbert Elí og Kristín Magdalena hittu Mark í London á síðasta ári og var Bítlasérfræðingurinn ákaflega ánægður með að bókin yrði þýdd á íslensku. „Hann hefur mikinn áhuga á Íslandi og er mjög spenntur yfir því að hún sé að koma út á Íslandi. Hann nefnir til að mynda Ísland í viðtölum þegar spurt er út í hvar bókin kemur út,“ segir Friðbert Elí léttur í lundu. 

Bókin er fyrsta bókin af þremur en sú næsta kemur út árið 2020. 

Bítlaáhugamaðurinn Friðbert Elí Friðbertsson og Bítlasérfræðinginn Mark Lewisohs í London.
Kristín Magdalena Kristjánsdóttir þýðandi og Bítlasérfræðinginn Mark Lewisohs í London.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×