Innlent

Verulegar líkur á uppsögn kjarasamninga í janúar

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins segir að verulegar líkur séu á því að heimild til uppsagnar kjarasamninga muni skapast í janúar á næsta ári. Þetta kom fram í ræðu Vilmundar á aðalfundi SA sem fram fór í dag. Þar benti hann á að kjarasamningarnir sem nú séu í gildi séu bundnir forsendum um þróun kaupmáttar, verðbólgu, gengi krónunnar og efndum ríkisstjórnarinnar.

Vilmundur bendir á að í janúar á næsta ári, þegar samningarnir verða endurskoðaðir, stefni í að gengi krónunnar verði mun lægra en forsendur samninganna geri ráð fyrir. Þá hafi launakostnaður aukist verulega meira en samningarnir fólu í sér auk þess sem óvissa ríki um þróun kaupmáttar þar sem verðbólga virðist ætla verða meiri en gert var ráð fyrir.

Vilmundur sagði að vandi atvinnulífsins sé sá að gert hafi verið ráð fyrir að aukin umsvif í hagkerfinu myndu létta undir með fyrirtækjunum að standa undir launahækkunum. „Enn eru fjárfestingar í algeru lágmarki og ekki sjáanlegar neinar verulegar breytingar þar á. Það eru því verulegar líkur á því að heimild til uppsagnar kjarasamninga muni skapast í janúar 2013. Aðstæður bjóða hins vegar alls ekki upp á svigrúm til frekari launahækkana en þeirra sem um var samið fyrir nær ári síðan."

Ræðu Vilmundar má í heild sinni lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×