Innlent

Atvinnuleysi minnkaði lítillega í janúar

Meirihluti þeirra 900 sem tóku þátt í námsátakinu „Nám er vinnandi vegur“ hélt áfram í námi eftir áramót og fór því af atvinnuleysisskrá.
Meirihluti þeirra 900 sem tóku þátt í námsátakinu „Nám er vinnandi vegur“ hélt áfram í námi eftir áramót og fór því af atvinnuleysisskrá. Fréttablaðið/vilhelm
Atvinnuleysi mældist 7,2 prósent í janúar og lækkaði um 0,1 prósentustig frá því í desember. Þetta kemur fram í nýjum tölum Vinnumálastofnunar um ástand á vinnumarkaði.

Atvinnulausir voru að meðaltali 11.452 í janúar og fækkaði um 308 frá desember. Atvinnulausum körlum fjölgaði um 61 að meðaltali í mánuðinum en konum fækkaði um 369. Þá fækkaði atvinnulausum á höfuðborgarsvæðinu um 313 en fjölgaði um fimm á landsbyggðinni.

Mest atvinnuleysi er sem fyrr á Suðurnesjum, 12,5 prósent, en minnst á Norðurlandi vestra þar sem það er 2,8 prósent. Atvinnuleysi er 7,5 prósent meðal karla en 6,8 prósent meðal kvenna.

Fram kemur í tilkynningu Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendum fjölgi yfirleitt nokkuð á milli desember og janúar. Fækkunin nú skýrist aðallega af tvennu.

Annars vegar því að flestir þeirra ríflega 900 einstaklinga sem tóku þátt í námsátakinu „Nám er vinnandi vegur“ halda áfram námi í vor og fóru því af atvinnuleysisskrá um áramótin. Hins vegar rann út um áramótin bráðabirgðaákvæði um minnkað starfshlutfall en samstundis afskráðust af atvinnuleysisskrá nærri 500 manns sem höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur með hlutastarfi.

Þá telur Vinnumálastofnun líklegt að atvinnuleysi aukist í febrúar og verði á bilinu 7,1 til 7,4 prósent.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×