Innlent

Björn Friðfinnsson látinn

Björn Friðfinnsson lögfræðingur og fyrrverandi ráðuneytisstjóri lést þann 11. Júlí síðastliðinn, 72 ára að aldri.

Björn átti að baki langan og farsælan starfsferil í opinberri stjórnsýslu. Hann starfaði sem ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneyti, sameinuðu viðskipta- og iðnaðarráðuneyti og í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hann var einn af framkvæmdastjórum ESA (EFTA Surveillance Authority) í Brussel, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og framkvæmdastjóri lögfræði-og stjórnsýsludeildar borgarinnar, fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar í Mývatnssveit og bæjarstjóri á Húsavík, formaður Almannavarnaráðs og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Björn gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum, var stundakennari og prófdómari í opinberri stjórnsýslu og Evrópurétti við lagadeild Háskóla Íslands og skrifaði meðal annars kennslubók í opinberri stjórnsýslu. Þá hélt hann fjölda fyrirlestra um Evrópurétt og skrifaði greinar í blöð og tímarit um fræði- og þjóðfélagsmál. Hann átti einnig sæti í stjórn Norræna fjárfestingabankans.

Meðfram starfi var Björn virkur í félagsmálum. Hann átti sæti í stjórn Rauða kross Íslands og var formaður flóttamannaráðs RKÍ á áttunda áratugnum þegar tekið var á móti hópum flóttamanna frá Víetnam og Póllandi. Hann hafði alla tíð lifandi áhuga á málefnum og velferð flóttamanna og aðstoðaði þá ötullega við aðlögun að íslensku samfélagi. Björn var virkur í Lionshreyfingunni og var formaður Landssambands sumarhúsaeigenda.

Eftirlifandi eiginkona hans er Iðunn Steinsdóttir kennari og rithöfundur. Börn þeirra eru þrjú, barnabörnin níu og barnabörnin tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×