Innlent

Vinstri grænir leggjast gegn heræfingum í Elliðaárdal

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sóley Tómasdóttir og félagar hennar í VG eru á móti því að Boot Camp fái aðstöðu í Elliðaárdal.
Sóley Tómasdóttir og félagar hennar í VG eru á móti því að Boot Camp fái aðstöðu í Elliðaárdal.
Vinstri grænir í Reykjavíkurborg leggjast gegn því að Boot Camp fái aðstöðu í gamla húsnæði Fornbílaklúbbsins neðst í Elliðaárdal fyrir æfingaaðstöðu. Fréttablaðið greindi frá því á síðasta ári að Sjöstjarnan ehf, félag Skúla Gunnars Sigfússonar, sem oft er kenndur við Subway, hefði keypt hús af Fornbílaklúbbi Reykjavíkur. Hann leigði það til fyrirtækisins BootCamp og verður það notað undir líkamsræktarstöð. Kaupin voru háð þeim fyrirvara að borgaryfirvöld samþykki breytingar á deiliskipulagi á lóðinni. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi má eingöngu vera safn í húsinu.

Þegar fyrirspurn frá Ingimar Ingimarssyni lögmanni Sjöstjörnunnar var afgreidd í skipulagsráði undir lok síðasta árs lét Torfi Hjartarson, fulltrúi VG, í nefndinni bóka mótmæli vegna breytinganna. Torfi sagði að ekki færi vel á því að koma fyrir á þessu svæði líkamsrækt með herbúðarsniði.

„Vinstrihreyfingin-grænt framboð telur afar óheppilegt hvernig staðið var að samningum án fyrirvara fyrir hönd almennings þegar á sínum tíma var ráðist í byggingu sýningarhúss fyrir fornbíla í Elliðaárdal. Á móti kemur að almannavald í borginni setur starfsemi á þessum stað skorður með skipulagi. Vinstrihreyfingin-grænt framboð telur það skyldu borgaryfirvalda að standa vörð um umhverfi, lífríki og útivist í dalnum. Ekki fer vel á því að koma fyrir á þessu svæði líkamsrækt með herbúðasniði, hávaða og yfirbragði sem því fylgir, bílastæðaþröng og mikilli umferð bíla. Finna þarf húsum á svæðinu heppilegra hlutverk í sátt við mannlíf, sögu og náttúrulegt umhverfi," segir orðrétt í bókuninni.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, sagði við Vísi í morgun að frá þessum tíma hafi verið unnið að deiliskipulagsbreytingu sem Vinstri grænir hafi mótmælt bæði í borgarráði og borgarstjórn af þeim ástæðum sem fram komu í bókuninni. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að tillagan hafi ekki verið afgreidd í borgarstjórn en það verði gert fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×