Innlent

Vilja breyta lögum um líffæragjafir

LVP skrifar
Hópur þingmanna vill breyta lögum um líffæragjafir þannig að landsmenn verði sjálfkrafa líffæragjafar við andlát nema þeir hafi látið vita um annað áður.

Tillaga þessa efnis var lögð fram á Alþing í dag. Að henni koma átján þingmenn úr öllum flokkum. Í dag er gert ráð fyrir því að fólk vilji ekki gefa líffæri sín við andlát nema að það hafi tekið það fram áður. Þetta er nokkuð ólíkt því sem gerist hjá flestum nágrannaþjóðum okkar þar sem allir eru líffæragjafar nema þeir hafi tekið annað sérstaklega fram.

„Við viljum freista þess að auka fjölda líffæragjafa á Íslandi. Það er löng biðröð eftir því að fá líffæri. Það er hægt að bjarga mörgum mannslífum ef að fleiri gefa líffæri," segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Rannsókn sem gerð var á líffæraígræðslum hér á landi sýnir að aðeins í sextíu prósent tilfella voru aðstandendur tilbúnir að gefa líffæri þegar eftir því var óskað. Fjörtíu prósent neituðu því. Siv telur að lagabreyting auðveldi aðstandendum að taka erfiðar ákvarðanir við andlát ástvina.

„Ég held að þetta muni auka fjölda líffæragjafa. Ég vil nefna til dæmis á Spáni þar er næstum því helmingi færri sem að neita. Þeir fóru í mikið fræðsluátak og eru líka með ætlað samþykki þannig ég tel að það verði að auka umræðuna um líffæragjafir á Íslandi og líka að breyta lagaumhverfinu þannig að allir eigi auðveldara með að taka þessar ákvarðanir," bætir Siv við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×