Innlent

Stúdentar kvarta til umboðsmanns Alþingis vegna einkunnaskila

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis ástand einkunnaskila við Háskóla Íslands. Í yfirlýsingu frá ráðinu er bent á að samkvæmt reglum skólans skuli skila einkunnum innan tveggja vikna, en auka vika er veitt yfir jólin.

„Frestinn setti skólinn sér til þess að tryggja að prófúrlausnum væri skilað á skikkanlegum tíma til nemenda. Sein einkunnaskil torvelda t.d. ákvarðanatöku nemenda hvað áframhald á skólagöngu þeirra varðar," segir í yfirlýsingunni. „Einnig eru lagðar námsframvindukröfur á íbúa stúdentagarðanna, og geta tafir á einkunnagjöf því valdið miklum óþægindum."

Þá er bent á að Lánasjóður íslenskra námsmanna geri þá kröfu til nemenda að þeir skili inn 18 einingum áður en fyrstu lánin eru greidd út. „Námsmenn sitja því uppi í mörgum tilfellum með háa, og dýra, yfirdrætti á reikningum sínum þar til námslán eru greidd út. Tefjist það, felur það í sér aukinn kostnað fyrir nemendur uppá þúsundir króna. Þetta þýðir tap stúdentasamfélagsins uppá a.m.k. hundruðir þúsunda, hvert einasta prófatímabil."

Meðaltafir um síðustu jólapróf voru 5,1 dagur og í þeim námskeiðum sátu 2.703 nemar. „Það gera því 13.828 auka vaxtadagar sem falla til vegna ólögmætra tafa Háskóla Íslands."

Stúdentaráð hefur áður kvartað undan töfum af þessum toga og var niðurstaðan úr því að settar voru verklagsreglur. „Það virðist ekki hafa dugað og því stendur sú ákvörðun að endurvekja kvörtunina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×