Innlent

Huga ber að bílnum þegar vetur nálgast

Að mörgu þarf að huga þegar vetur gengur í garð. Bifreiðaeigendur hafa þá í nógu að snúast enda skiptir undirbúningur bílsins fyrir frosthörkurnar sköpum eins og þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis komust að í dag.

Stefán Ásgrímsson, ritstjóri FÍB-blaðsins, var gestur í útvarpsþættinum í dag og ræddi hann þar um viðhald og undirbúning bifreiða fyrir veturinn.

„Maður þarf að vera svolítið góður við bílinn svo að hann bregðist manni ekki þegar mikið liggur við," segir Stefán. „Það þarf auðvitað að halda honum vel við. En það er ágætt að fá bílinn yfirfarinn á næstu smurstöð."

Sem fyrr er frostlögurinn mikilvægur og bendir Stefán ökumönnum á að láta starfsmenn smurstöðva mæla hann. „Það borgar sig að gera það áður en það tekur að frjósa."

Þá bendir Stefán á að bílafloti Íslendinga sé að eldast. Aukið viðhald sé því nauðsynlegt.

„Það er margt sem maður getur gert sjálfur," segir Stefán. „Það er til dæmis gott að smyrja læsingar og bæta frostlög í rúðupissið. Þá er líka nauðsynlegt að ganga einn eða tvo hringi um bílinn og taka stöðuna á ljósunum."

Hægt er að hlusta á áhugavert viðtal við Stefán Ásgrímsson hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×