Innlent

Eldurinn breiðist út - 800 bar logar líka

Mikill eldur er í röraverksmiðjunni eins og sést á þessari mynd sem tekin var stuttu áður.
Mikill eldur er í röraverksmiðjunni eins og sést á þessari mynd sem tekin var stuttu áður. Mynd/Sigríður Elín Sveinsdóttir
Eldurinn sem kom upp í Set röraverksmiðju rétt eftir klukkan eitt í dag er nú farinn að breiðast út og hefur nú fest sig í þakinu á skemmtistaðnum 800 bar, sem er í samtengdu húsi við röraverksmiðjuna. Að sögn Kristjáns Einarssonar slökkviliðsstjóra sem er á staðnum er nú verið að rjúfa þakið á barnum og freista menn þess að koma í veg fyrir að eldurinn nái að læsa sig í næsta hús. Þar er TRS rafeindaþjónustan til húsa.

Nærliggjandi fyrirtæki hafa verið rýmd vegna mikils reyks sem gengur yfir svæðið. Að sögn Kristjáns er vindátt þó tiltölulega hagstæð með tilliti til íbúabyggðar.

Slökkvilið frá höfuðborgarsvæðinu hefur sent fjóra slökkviliðsbíla á staðinn til að aðstoða heimamenn. Allt tiltækt slökkvilið af nærliggjandi svæðum hefur verið kallað til, frá Selfossi, Hveragerði og Þorlákshöfn. Björgunarsveitin á Selfossi er að stjórna umferð þar sem fjöldi ökumanna er að reyna að sjá eldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×