Innlent

Ísinn er eins og fljótandi grjót

Óvanalegt er nú um að litast við Jökulsárslón. Jakarnir eru nú huldir grásvörtu öskulagi. mynd/Einar björn
Óvanalegt er nú um að litast við Jökulsárslón. Jakarnir eru nú huldir grásvörtu öskulagi. mynd/Einar björn
Það var enginn blámi yfir Jökulsárlóni í gær. Ísjakarnir þar eru svartir og það var ekkert að gera, að sögn Einars Björns Einarssonar sem rekur ferðaþjónustuna Glacier Lagoon.

Á annað hundrað ferðamenn höfðu pantað siglingu um lónið á sunnudaginn en þeir komu ekki. „Þetta var mestmegnis fólk sem ætlaði að koma vestan að. Við sigldum hins vegar með sextán manns. Það voru strandaglópar sem ekki höfðu pantað ferð hjá okkur fyrirfram,“ segir Einar Björn og bætir því við að í stað fallegra hvítra ísjaka sé nú eins og fljótandi grjót sé í lóninu.

„Það má búast við að ísinn verði lengi svartur. Það er að vísu lítill ís eins og er. Í byrjun júní brotnar yfirleitt mikið úr jöklinum, sem er svartur, og það getur vel verið að við fáum hreinni ís ef hann snýr sér.“

Einar segir menn í ferðaþjónustunni vera rólega. „Þarna er náttúran að verki sem við ráðum ekki við. Við verðum að taka því með jafnaðargeði.“- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×