Innlent

Hvað er Khat?

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann 60 kíló af efninu hér á landi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann 60 kíló af efninu hér á landi. Mynd/Valgarður
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann um 60 kíló af efninu Khat í fórum fjögurra erlendra ríkisborgara í vikunni. Efninu var pakkað inn hér á landi en ekki er talið að áætlunin hafi verið að koma því á markað á Íslandi. Lögreglan telur að ætlað hafi verið að koma efninu í dreifingu í Bandaríkjunum eða í Kanada, en þar hafa vinsældir efnisins aukist mikið síðustu ár.

Fíkniefnið Khat er afurð plöntu frá Norðaustur-Afríku sem getur orðið allt upp í 20 metra há. Laufblöð plöntunnar verða 5 til 10 sentimetra löng og 1 til 4 sentimetrar á breidd. Neysla efnisins er með þeim hætti að laufblöðin eru tuggin eða látin út í heitt vant og það síðan drukkið eins og te. Áhrif neyslunnar er svipuð og af amfetamíni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, það er að segja örvandi. Blóðþrýstingur og hjartsláttur eykst mikið við neyslu efnisins. Aukaverkanir eru meðal annars svimi og hjartatruflanir.

Efnið er ólöglegt í öllum löndum Evrópusambandsins, nema Bretlandi og Hollandi. Efnið er aðalega framleitt í Eþíópíu og Kenía. Efnið er skilgreint sem ávána- og fíkniefni hér á landi.

Ekki er vitað til þess að efnið hafi verið í umferð hér landi en lögregla hefur áður lagt hald á efnið, en ekki í því magni sem hún gerð í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×